150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar vegna frumvarps til laga um ferðagjöf. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Þórarin Örn Þrándarson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Andra Heiðar Kristinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Skarphéðin Berg Steinarsson og Guðnýju Hrafnkelsdóttur frá Ferðamálastofu, Skapta Örn Ólafsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Indriða Björn Ármannsson frá Þjóðskrá Íslands, Guðmund Hauk Guðmundsson frá Samkeppniseftirlitinu, Helgu Sigríði Þórhallsdóttur frá Persónuvernd, Aðalstein Óskarsson og Sigríði Kristjánsdóttur frá Vestfjarðastofu og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Nefndinni bárust umsagnir og erindi frá Ferðamálastofu, Icelandic Camping Equipment, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samkeppniseftirlitinu, Vestfjarðastofu og Þjóðskrá Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að stjórnvöldum verði heimilt að gefa út stafræna inneign, ferðagjöf, að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu. Ferðagjöfinni er ætlað að vera hvati til einstaklinga til að ferðast innan lands en gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta gjöfina hjá ferðaþjónustuaðilum sem hafa starfsstöð á Íslandi, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða einskiptisaðgerð sem er meðal skilgreindra aðgerða íslenskra stjórnvalda til að veita efnahagslífinu viðspyrnu vegna yfirstandandi Covid-19 heimsfaraldurs.

Nefndin ræddi sérstaklega hvort ástæða væri til að gera breytingar í þá átt að hækka fjárhæð ferðagjafarinnar til einstaklings en í frumvarpinu er lagt til hún nemi 5.000 kr. og sé undanþegin skattskyldu. Fram kom að horfa verði á fjárhæðina í samhengi við bæði ákvæði um undanþágu frá skattskyldu og heimild til framsals en í frumvarpinu er lagt til í 3. mgr. 1. gr. að einstaklingi verði heimilt að gefa eigin ferðagjöf og að heimilt verði að greiða með að hámarki 15 ferðagjöfum, samtals 75.000 kr. Verði fjárhæð gjafar hækkuð þurfi að líta til þeirra sjónarmiða er gilda um undanþágu tækisfærisgjafa frá skattskyldu á grundvelli 4. töluliðar A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Samkeppniseftirlitið gerir í umsögn sinni athugasemd við þá afmörkun sem lögð er til í 5. tölulið 2. mgr. 1. gr. um fyrirtæki sem geti tekið við ferðagjöfinni sem greiðslu, þ.e. söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru. Telur eftirlitið skorta á viðmið eða skilyrði sem Ferðamálastofa geti stuðst við þegar lagt er mat á hvort starfsemi umsækjanda falli þar undir. Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð með frumvarpinu sé um slíkt mat vísað til m.a. ákvæða safnalaga um afmörkun skilyrða, auk þess sem litið sé til skilgreininga í öðrum lögum og reglum. Jafnframt hefur komið fram að í ljósi aðstæðna sé vilji til að ákvæðið verði túlkað rúmt frekar en það sé þrengt um of og nýtist því ekki eins og lagt var upp með.

Við meðferð málsins hefur verið óskað eftir því að nefndin tæki t.d. til skoðunar að rýmka afmörkunina sem lögð er til í 2. mgr. 1. gr. þannig að hún taki til aðila sem leigja út búnað til útivistar. Meiri hlutinn bendir á að við afmörkun þeirra fyrirtækja sem heimiluð er þátttaka í verkefninu er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja á hlutlægum mælikvarða varðandi útgáfu opinberra leyfa til starfsemi. Meiri hlutinn bendir á að við meðferð málsins kom fram að þar sem í þessari aðgerð felst ríkisaðstoð er gert ráð fyrir að Ferðamálastofa birti lista yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið greiðslur með gjafabréfinu sem og fjárhæð innleystra gjafabréfa til hvers þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að gildistími ferðagjafar sé frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020. Í umsögnum Vestfjarðastofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið koma fram þau sjónarmið að æskilegt sé að gildistíminn verði lengdur til og með 31. maí 2021, m.a. með vísan til jafnræðis á milli landshluta og ferðaþjónustuaðila. Gildistíminn sé ekki í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um eflingu heilsársferðaþjónustu, þ.e. að dreifa ferðamönnum betur um landið og jafna árstíðasveiflur. Því til stuðnings er bent á að meginþungi vetrarferðaþjónustu, þ.e. þeirrar afþreyingar sem er í boði, sé á tímabilinu desember til apríl.

Meiri hlutinn vill í þessu samhengi minna á að ferðagjöfin er aðgerð sem felur í sér ríkisaðstoð samkvæmt 61. gr. EES-samningsins. Aðgerðin er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA, líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og tekur mið af þeim viðmiðum sem sett voru í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi Covid-19 heimsfaraldurs. Meðal skilyrða er að aðstoð sé veitt í síðasta lagi 31. desember 2020. Meiri hlutinn telur sér því ekki fært að leggja til breytingar sem fela í sér lengdan gildistíma ferðagjafar.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að tryggja yrði að ferðagjöfin hefði ekki í för með sér skerðingu á öðrum greiðslum, svo sem bótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Meiri hlutinn bendir á að meginreglan er sú að aðeins skattskyldar tekjur koma til skerðingar þeim tekjutengdu bótum eða greiðslum sem einstaklingur fær, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar. Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ferðagjöfin teljist ekki til skattskyldra tekna í skilningi laga um tekjuskatt og sé ekki framtalsskyld. Með vísan til þessa áréttar meiri hlutinn að ekki ætti að koma til skerðingar tekjutengdra greiðslna.

Með frumvarpinu er lagt til að ferðagjöfin verði afhent með smáforriti í farsíma eða greiðslukóða á netinu. Til að virkja gjafabréfið þurfi þá að skrá sig í gegnum Ísland.is. Nokkur umræða varð í nefndinni um persónuverndarsjónarmið sem taka þarf tillit til þegar einstaklingar nýta sér ferðagjöfina. Persónuvernd segist í umsögn sinni ekki gera athugasemdir við efni frumvarpsins en áréttar mikilvægi þess að við gerð og notkun smáforritsins og greiðslukóða á netinu, sem og við aðra vinnslu persónuupplýsinga við útfærslu reglna frumvarpsins, verði gætt að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga í hvívetna. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið Persónuverndar.

Gert er ráð fyrir að veita 1,5 milljarða kr. til þessarar aðgerðar. Í greinargerð fjáraukalagafrumvarpsins sem samþykkt var í mars sl. segir að stefnt sé að því að gefa út stafræn gjafabréf á grundvelli sérstakrar fjárheimildar með það að markmiði að hvetja landsmenn til að nýta innviði ferðaþjónustunnar hér landi í sumar. Samkeppniseftirlitið gerði í umsögn sinni athugasemd við útfærslu á ferðagjöfinni, með vísan til ábendingar sem því barst um að ekki hefði verið haft samband við önnur fyrirtæki sem bjóða upp á sambærileg smáforrit í farsíma sem hefðu getað nýst við útfærslu og dreifingu á ferðagjöfinni.

Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um valferli tæknibirgja fyrir farsímalausn um ferðagjöf og kostnað við tæknilega útfærslu. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var við frumskoðun á verkefninu ekki talið að kaup á stafrænni lausn fyrir gjafabréfin væru yfir útboðsmörkum. Því var send út verðfyrirspurn til að gæta að meginreglum um jafnræði, gagnsæi og samkeppni meðal þeirra fyrirtækja sem talið var að gætu útvegað tæknilega lausn sem þegar væri til staðar og væri hægt að nýta án mikils þróunarkostnaðar. Markmiðið var að halda kostnaði vegna verkefnisins í lágmarki og koma því af stað eins hratt og örugglega og hægt væri í ljósi alvarlegrar stöðu ferðaþjónustufyrirtækja hér landi. Heildarkostnaður við þróun á smáforritinu Ferðagjöf í farsíma nemur samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu 4 millj. kr. Einnig er gert ráð fyrir að heildargreiðsla til þess fyrirtækis við umsýslu, rekstur, þjónustu og uppgjör ferðagjafar nemi 8–11 millj. kr. Þá segir ráðuneytið að áætlaður kostnaður við þróun skráningar- og umsjónarkerfis á Íslandi.is sé 7–10 millj. kr. Vísað er til þess að öll hugbúnaðarþróun á vegum Ísland.is er framkvæmd í kjölfar rammasamnings við annað fyrirtæki sem hlutskarpast var í nýafstöðnu útboði á vegum Ríkiskaupa, Útboð 21018 – Þverfagleg teymi fyrir Stafrænt Ísland.

Svo ég komi aðeins að umræðum í nefndinni þá var þar aðeins rætt um kennitölur og hugtakið „íslensk kennitala“. Í frumvarpinu er lagt til að ferðagjöfin verði útgefin til einstaklinga sem eru 18 ára eða eldri og með íslenska kennitölu. Við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að afmarka þyrfti skýrar í ákvæðinu hvað fellur undir hugtakið íslensk kennitala. Líkt og rakið er í umsögn frá Þjóðskrá Íslands má segja að íslenska kennitalan sé skráð í tvær skrár, þjóðskrá og kerfiskennitöluskrá. Í þjóðskrá eru einnig skráðar kennitölur fjölda íslenskra ríkisborgara sem hafa verið búsettir erlendis til lengri eða skemmri tíma og erlendra ríkisborgara sem eru búsettir erlendis. Í kerfiskennitölu séu skráðar íslenskar kennitölur, m.a. til notkunar fyrir hið opinbera til auðkenningar vegna viðskipta, en þær veiti t.d. ekki réttindi til dvalar á Íslandi. Ekki sé aðgreining á milli þessarar tegunda kennitöluskráningar.

Meiri hlutinn telur því rétt að skýra betur hvað átt er við með hugtakinu „íslensk kennitala“ og leggur til að höfðu samráði við ráðuneytið, að bætt verði við ákvæðið skilyrði um lögheimili á Íslandi. Um sé að ræða hlutlægt og málefnalegt skilyrði með hliðsjón af tilgangi laganna. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur slík breyting ekki áhrif á kostnað, enda í samræmi við þann fjölda sem gert er ráð fyrir að nýti sér aðgerðina. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að auk skilyrða um að ferðagjöfin verði útgefin til einstaklinga sem eru 18 ára eða eldri, þ.e. fæddir árið 2002 eða fyrr, og eru með íslenska kennitölu, verði bætt við skilyrði um skráð lögheimili á Íslandi.

Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Við 1. mgr. 1. gr. bætist: og með skráð lögheimili á Íslandi.“

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sá sem hér stendur, Njáll Trausti Friðbertsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Ásmundur Friðriksson.