150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[16:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það var ágætlega djúpt á svarinu við persónuverndarspurningunni. Mig grunar að hv. framsögumaður viti ekki svarið, viti ekki hvort það app sem nota á sé með opinn hugbúnað eða ekki. Kannski að hann komi upp og útskýri það varðandi persónuverndarsjónarmiðin.

Ef maður ætlar að passa virkilega vel og fyllilega upp á persónuverndarsjónarmið verður maður að hafa opinn hugbúnað. Samið er við fyrirtæki um að gera þetta, verð skoðað og svo er ákveðið eitthvert fyrirtæki, jafnvel þó að menn viti ekki hvort það sé leyfilegt eða löglegt. Menn vita ekki hvort fara þurfi í útboð. Það var bara það sem kom fram í nefndinni. Samt sem áður var fyrirtæki valið. Það býr til appið. Er það með opnum hugbúnaði, eins og nauðsynlegt er ef virkilega á að passa upp á persónuvernd eins og hægt er? Ef ekki, munu Píratar að sjálfsögðu ekki setja stimpil sinn á þetta mál. Það er gott að mörgu leyti, en við munum þá bara sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. En ef framsögumaður hefði gert eins og ég óskaði eftir, að passa upp á að persónuverndarsjónarmiða væri gætt, m.a. þessa, hefðu Píratar verið með. En að sjálfsögðu getum við það ekki þegar ekki er gert það besta varðandi persónuvernd eins og að hafa að lágmarki opinn hugbúnað.