150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta varðar fjármögnun verkefna. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Orkusjóðs gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr Orkusjóði í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda sem og fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.“

Það er allt og sumt. Það sem breytingartillagan felur í sér er að við bætum inn því sem atvinnuveganefnd bætti inn um Matvælasjóð fyrir sex vikum á þeim sömu forsendum, að við viljum gæta meira að faglegri sjónarmiðum þegar kemur að úthlutun á almannafé, við viljum að háskólasamfélagið og nýsköpunariðnaðurinn o.s.frv. komi að. Þá bætist við, með leyfi forseta:

„… sem og að fenginni umsögn fagráðs sem stjórnin skipar til fjögurra ára í senn. Fagráð skal skipað allt að sjö einstaklingum. Fagráð er til ráðgjafar um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum. Jafnframt er fagráð ráðgefandi fyrir stjórn sjóðsins eftir því sem óskað er.“

Að sjálfsögðu ætti að setja þetta inn. Það minnkar freistnivanda ráðherra og gerir þetta faglegra en einhverra hluta vegna þráast framsögumaður málsins og meiri hluti nefndarinnar við að gera eins og við gerðum með Matvælasjóð. (Forseti hringir.) Við skulum sjá til (Forseti hringir.) hvernig verður úthlutað úr sjóðnum og ef það verður eitthvert bix eða sukk með það þá er það á (Forseti hringir.) ábyrgð þeirra sem samþykkja það hér í dag.