150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[20:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að greiða atkvæði um það sem kallað hefur verið ferðagjöf, mál sem byrjaði feril sinn sem ferðaávísun. Við þingmenn Miðflokksins í atvinnuveganefnd flytjum hér breytingartillögu sem er ætluð til að styrkja þann þátt málsins sem lýtur að því að efla ferðaþjónustuna við aðstæður þar sem hún er á hnjánum. Sú tillaga miðast við það að í stað þess að fjárhæðin verði 5.000 kr. verði hún 15.000 kr. Við munum við afgreiðslu fjáraukalaga gera grein fyrir fjármögnun og hagræðingaraðgerðum til að mæta þeim auknu útgjöldum. En þarna er þetta orðin efnahagspólitísk aðgerð í meira mæli en nú liggur fyrir. Ég tel að ferðaþjónustan eigi þennan stuðning skilinn vegna þess að hún hefur fært landinu gífurlegar tekjur, gjaldeyri og störf og er fallin til þess að halda landinu öllu í byggð.