150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær eru áhugaverðar, ræður hv. Miðflokksmanna um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi borgarlínu. Hv. þingmaður nefndi það sem hann kallaði draumóra, að í Reykjavík yrðu notaðar almenningssamgöngur eins og í erlendum góðviðrisborgum. Nú finnst mér ekki mjög fínt að draga sífellt fram í pontu Alþingis persónulega reynslu, það er ekki mjög vísindalegt, en ég verð samt að gera það í þetta sinn. Það vill nefnilega svo til að ég hef búið í tveimur borgum erlendis, önnur heitir Turku, hin heitir Winnipeg. Þær eru báðar mjög kaldar og veturnir þar eru miklu kaldari og verri fyrir útiveru en í Reykjavík nokkurn tíma. Reykjavík er bara tiltölulega mild að vetri til reyndar, að minni reynslu, sér í lagi eftir að hafa búið í Winnipeg, en þar verður kuldinn hreinlega fáránlegur. Fólk notar samt strætó í þessum borgum og notar hann mikið. Ég notaði sjálfur strætó í báðum borgunum og reyndar líka í Helsinki sem er önnur mjög köld borg í Finnlandi. Þetta er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni. Sú sýn að íslenskt eða reykvískt veður sé einhvern veginn of slæmt fyrir strætó er bara ekki rétt, virðulegi forseti. Fólk tekur strætó og notar almenningssamgöngur í miklu verri veðrum en þeim sem eru hér almennt að vetri til.

Ofan á það finnst mér gæta ákveðins misskilnings í ræðu hv. þingmanns um strætó um það hversu margir eigi að vera inni í hverjum einasta vagni. Það segir sig sjálft að strætisvagnar hér eins og annars staðar þurfa að ganga samkvæmt ákveðinni áætlun. Sú áætlun þarf að ganga jafnvel þótt ekki sé mikið álag á kerfinu akkúrat þá stundina. Það er reyndar mjög oft troðfullt í strætó og ég þekki það af eigin reynslu vegna þess að ég nota strætó sjálfur sem þingmaður eða gerði það áður en ég fékk yndislega rafmagnshlaupahjólið mitt.

Ég vildi koma hérna og leiðrétta hv. þingmann aðeins hvað varðaði þetta með strætóinn. Það er ekkert við íslenskt veður sem gerir strætó á nokkurn einasta hátt að óraunhæfari eða verri kosti (Forseti hringir.) en í borgum erlendis þar sem það tíðkast og þykir algjörlega sjálfsagt mál og ekki bara fyrir fólk sem neyðist til að nota hann heldur líka fólk sem notar hann vegna þess að hann er þægilegri.