150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir þessar athugasemdir. Ég get einnig sagt hv. þingmanni margar sögur af fólki sem bíður í löngum röðum í bílum sínum á höfuðborgarsvæðinu, og það geta ábyggilega flestir höfuðborgarbúar gert, og pirringnum sem fylgir þessu og sérstaklega undanfarin ár. Af hverju skyldi það vera? Það er einfaldlega vegna þess að það hafa engar framkvæmdir að neinu ráði verið á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð. Þess vegna sitjum við uppi núna með raðir hér á hverjum degi, nánast alls staðar, nánast á hvaða tíma sem er, nema kannski helst yfir blánóttina, umferðarraðir og -tafir á flestum stofnbrautum í kringum miðborgina og langt út fyrir Reykjavík sjálfa á hverjum degi. Ég gæti sagt margar sögur af því.

Hvaða lausnir er Miðflokkurinn með til að bæta umferð? Ekki borgarlínu. Frekar að fara í framkvæmdir á mislægum gatnamótum og auka streymi hér, fara í Sundabraut t.d. Hvar er hún? (Gripið fram í.) Nei, þið látið meiri hlutann í borginni teymi ykkur á asnaeyrunum inn í þetta borgarlínuævintýri.