150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Ég heyri að honum er mjög brugðið að ég skuli tala um einhver framtíðarfræði eins og sviðsmyndir, eins og það sé ofboðslega púkó. Rekstraráætlun er án efa til, þó að ég viðurkenni að ég hafi ekki komið að henni þegar ég vann við skipulagið.

Eins og ég var að útskýra fyrir hv. þingmanni áðan er þetta auðvitað ekkert nýtt apparat sem er öðruvísi en almenningssamgöngur og Strætó eru í dag. Við sjáum það í rekstri Strætós að þegar rauði dregillinn verður til og strætisvagninn kemst óhindrað áfram sparast umtalsverðir fjármunir þannig að þegar til er mannvirki sem getur tekið á móti þessum vögnum, þeir geta jafnvel verið stærri og tekið fleiri farþega sem borga þar af leiðandi meira, verður hagkvæmnin meiri. Það höfum við dæmi um frá mörgum borgarsamfélögum í kringum okkur. Við getum séð nákvæmlega hvernig slík þróun er. Ég efast ekki um að í þessu ágæta samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu séu til rekstraráætlanir en þær miðast auðvitað alltaf við það hversu hratt verður farið í þessa uppbyggingu.