153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Fólk hefur frá örófi alda sóst í vímu, sem er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að vímuefni vaxa í náttúrunni allt í kringum okkur í öllum kimum heims. Manneskjan þróaðist samhliða þessum efnum. Við erum með móttakara í líkamanum fyrir mörgum þeirra og margir vilja meina að notkun efnanna eigi stóran þátt í þróun mannsins og samfélags okkar. Það er í eðli okkar að sækjast í breytta vitund, að víkka hug okkar, að sjá heiminn frá nýju sjónarhorni. Þessi löngun er sterk strax frá ungum aldri. Við sjáum það á börnunum okkar þegar þau hringsnúast þar til þau detta í gólfið í hláturskasti. Þessi löngun vex ekkert af okkur en flest okkar hafa hemil á henni og hún veldur engum vanda. Þroskaferli ungs fólks er fjölbreytt og mismunandi og fyrir mörg er áhættuhegðun á tímabili eðlilegur þáttur í þroskaferli. Mörg prufa sig áfram með mismunandi efni og það hefur sýnt sig að bönn og refsingar hafa lítil sem engin áhrif. Þau koma ekki í veg fyrir fikt og þau koma ekki í veg fyrir að fólk þrói með sér vímuefnavanda.

Ef við getum ekki komið í veg fyrir vímuefnanotkun viljum við þá ekki tryggja eins öruggt umhverfi og hægt er? Viljum við að ungt fólk sem er að fikta hafi þann valmöguleika að sannreyna öryggi þeirra efna sem þau ætla að nota? Aðgengileg vímuefnapróf eru mikilvægt skaðaminnkandi úrræði sem bjarga lífum. Ef við viljum tryggja að vímuefnanotendur hafi greiðan aðgang að mótefninu naloxón við ofskömmtun ópíóíðalyfja þá liggur í augum uppi að naloxón þurfi að leyfa í lausasölu. Viljum við að fólk þori að hringja í sjúkrabíl ef eitthvað fer úrskeiðis, t.d. ef einhver ofskammtar? Í dag er fólk hrætt við að hringja vegna þess að það er samkvæmt lögum að fremja glæp og getur átt von á því að lögreglan mæti. Þá bjargar lífum að afnema refsingar við neysluskömmtum vímuefna svo að fólk þori að hringja eftir aðstoð.

Skaðaminnkun snýst um að viðurkenna að fólk mun nota vímuefni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Refsingar komi ekki í veg fyrir það. Hugmyndafræði skaðaminnkunar krefst þess að við horfumst í augu við þann raunveruleika og setjum lög og reglur í samræmi við þann raunveruleika vegna þess að okkur er annt um fólk og það skiptir okkur máli sem samfélag að koma í veg fyrir dauðsföll, að koma í veg fyrir skaða. Við gerum það með því að tryggja aðgengi að skaðaminnkandi úrræðum en fyrst og fremst þá gerum við það með því að hætta að láta refsikerfið díla við vanda sem er í grunninn félagslegur.

Hugmyndafræði skaðaminnkunar neyðir okkur til að horfa á dýpri vandann og þegar við áttum okkur á áföllunum sem liggja að baki vímuefnavandanum þá skiljum við hversu mikil vanþekking og hversu miklir fordómar felast í því að ætla að refsa vímuefnanotendur til hlýðni.

Lögreglan telur að 40 manns hafi látist aðeins fyrstu þrjá mánuði þessa árs vegna lyfjatengdra andláta. Það eru nánast jafn margir og létust allt árið 2021 og þó voru það óvenjumörg andlát. Þetta er ógnvænleg þróun, forseti. Þetta er þróun sem á sér stað þrátt fyrir og jafnvel vegna þeirrar bann- og refsistefnu sem viðgengist hefur í allt of mörg ár án þess að það sé hægt að sýna neinn árangur, forseti. Við erum búin að vera með stefnu í vímuefnamálum í áratugi sem hefur ekki getað sýnt neinn árangur. Hvernig leyfist okkur að halda áfram á þeirri braut?

Ég bað um þessa umræðu fyrst og fremst vegna þess að mér hefur fundist ráðherra tala á þann veg að skaðaminnkun og afglæpavæðing sé sitthvor hluturinn og það veldur mér áhyggjum vegna þess að það varpar ljósi á ákveðið þekkingarleysi á málaflokki sem ráðherra segist ætla að ráðast í af alvöru. Mig langar til að trúa því að ráðherra ætli að ráðast í átak í þeim málaflokki af alvöru vegna þess að þetta er gríðarlega mikilvægt mál, miklu mikilvægara heldur en við gerum okkur grein fyrir, vegna þess að þróunin er þannig að skaðinn er að verða meiri, skaðinn er að aukast, andlátum er að fjölga, vanlíðan fólks er að aukast og við verðum að grípa inn í. Stefnan sem við keyrum áfram í dag er ekki að virka.

Ég lagði fram nokkrar spurningar á grundvelli umræðunnar sem við ætlum að eiga hér í dag. En spurningin sem ég vil helst leggja áherslu á að ráðherra svari er hvernig ráðherra telur að það sé hægt að ná markmiðum skaðaminnkunar án þess að afnema refsingar fyrir neysluskammta, vegna þess að ég sé það ekki ganga upp. Og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að heilbrigðisráðherra sem er að fara í átak í skaðaminnkunarmálum geti svarað þeirri spurningu.