153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er algengt að vímuefnaneytendur eigi sér áfallasögu. Forvarnir, svo sem aðgengi að sálfræðimeðferð eftir áföll barna og ungmenna, gætu forðað fólki frá því að leita í vímuefni síðar á ævinni sem þróast gæti í fíknivanda. Fyrir fjórum árum skrifaði Tinna Kristín Gísladóttir BA-ritgerð sem ber yfirskriftina Er skaðaminnkun betri kostur en stríð gegn fíkniefnum? Í útdrætti segir m.a., með leyfi forseta:

„Skaðlegar afleiðingar vímuefna fyrir bæði notendur og aðstandendur hafa lengi verið viðurkenndar en þrátt fyrir það sjá sumir bannstefnuna og aðför hennar sem meira vandamál en fíkniefnin. Markmið með þessari ritgerð er að skoða hvort skaðaminnkun sé betri kostur en stríð gegn fíkniefnum. Víða á Vesturlöndum er hamlandi stefnu beitt gagnvart fíknivandanum og er sú stefna iðulega nefnd stríð gegn fíkniefnum. Fíknistríðið felur í sér að harðar refsingar eru við lýði fyrir fíkniefnabrot en hætta er á að hamlandi stefna ýti undir útskúfun fíkniefnaneytenda og auki þannig á vanda þeirra. Fíknistríðið er talið valda meiri skaða en misnotkun vímuefna og virðist frekar viðhalda heilbrigðisvandamálum.“

Í ritgerð Tinnu Kristínar eru ólíkir kostir teknir fyrir og metnir ásamt reynslu frá nokkrum löndum sem hafa afglæpavætt fíkniefni og rannsóknir sýna jákvæðan árangur. Sá árangur sem náðst hefur er ekki einungis vegna afglæpavæðingar heldur einnig skaðaminnkunar en þetta tvennt helst óhjákvæmilega í hendur. Afglæpavæðing fíkniefna er ekki það sama og lögleiðing því að afglæpavæðing fíkniefna gerir þau ekki lögleg. Það felur ekki í sér að stjórnvöld taki yfir sölu þeirra og skapi löglegan markað með fíkniefni líkt og gert var með áfengi.

Herra forseti. Við stefnumörkun er ráðlegt að leita í rannsóknir og reynslu annarra þjóða í þessum efnum og leggja áherslu á að fækka þeim sem leita í vímuefni, minnka skaða þeirra sem ánetjast þeim og gæta að því að ýta ekki undir áhættuhegðun ungmenna í þessum efnum.