Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun kannski fara yfir mína sýn á þennan málaflokk í ræðu hér á eftir en það er auðvitað þannig að maður átti fyllilega von á því, það var bæði þannig í nefndinni og svo hér í þingsal, að við færum að ræða um fjölmiðlamarkaðinn allan og stöðu fjölmiðla og rekstrarumhverfi fjölmiðla. Það var fyrirséð, þó að ástæða sé til að minna á að hér erum við eingöngu að fjalla um lítinn hluta af því sem er framlenging á þessum styrkjum sem settir voru á til bráðabirgða á sínum tíma til að koma til móts við erfiða rekstrarstöðu fjölmiðla.

Ég skildi orð hv. þingmanns þannig, þegar hann talaði um að RÚV væri ekki rótin að rekstrarvanda fjölmiðla — að hvað? Að stuðningskerfi eins og við erum með hér sé það sem tryggi rekstraröryggi fjölmiðla á Íslandi? Í alvöru. Trúir hv. þingmaður því að það eina sem skipti máli fyrir frjálsa fjölmiðla á Íslandi sé að við setjum nokkur hundruð milljónir á ári í rekstrarstyrki og það sé bara ekkert annað sem þurfi að gera? Ef það er afstaða hv. þingmanns, sem ég gat ekki annað en lesið út úr ræðu hans hér áðan og úr andsvari við mig, þá held ég að hv. þingmaður sé á miklum villigötum. Ég tel einmitt að umræðan í nefndinni og þessi ágæta heimsókn sem við áttum á hin Norðurlöndin sýni að það þarf heildstæða stefnu eins og hæstv. ráðherra hefur boðað að skuli koma. Í þeirri stefnu verður að sjálfsögðu að fjalla um RÚV. Ég er ekki að leggja til að RÚV verði lagt niður. Það hafa margir í mínum flokki lagt til að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Við erum ekki að gera það núna en við erum að segja að þeir ættu kannski að hætta að vera eins aggressívir í auglýsingasölu og verið hefur og það kom skýrt fram í umsögnum þeirra sem komu til okkar í nefndinni að það hefði mjög svo truflandi áhrif á rekstrarumhverfi margra miðla, ekki síst héraðsfréttamiðla víða um land. Ég held því að það sá fásinna að halda að við getum einhvern veginn byggt hér upp öruggt rekstrarumhverfi fyrir frjálsa fjölmiðla með því einu að greiða í styrki nokkrar milljónir á ári. Ég fer kannski betur yfir það í ræðu minni á eftir hvað ég tel þurfa að gera til að hér verði almennilegt fjölmiðlaumhverfi.