Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Nú sit ég í allsherjar- og menntamálanefnd ásamt hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, formanni nefndarinnar, og um þetta frumvarp hafa borist þónokkrar umsagnir, þar á meðal einkarekinna fjölmiðla sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli. Kannski vekur það athygli hjá fleirum en mér að umsagnirnar lúta ekki eingöngu að þessu frumvarpi. Þær lúta að því að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi er orðið með öllu óviðunandi. Og það er ekki bara vegna þess að það þurfi að framlengja þetta styrkjakerfi sem hefur verið með einhverjar sporslur í einhvern tíma heldur hefur komið skýrt fram í máli umsagnaraðila, fleiri en eins og fleiri en tveggja, að annars vegar sé þetta styrkjaumhverfi, þar sem fjölmiðlar eru neyddir til að vera sífellt með betlistafinn á lofti, ekki bara algerlega ófullnægjandi til að tryggja rekstrarafkomu fjölmiðla og bara möguleika þeirra á að vera til heldur hefur því jafnvel verið fleygt að það sé verra en ekkert þar sem það getur akkúrat sett fjölmiðla í þá stöðu að finnast þeir þurfa einhvern veginn að friðþægja stjórnvöld til að fá áframhaldandi styrki. Þetta rímar kannski við röksemdir meiri hlutans í nefndarálitinu hvað það varðar.

Hins vegar hefur verið lögð áhersla á það í tengslum við þetta að vegna þessarar hættu þurfi styrkjakerfið að vera varanlegt. Það þurfi að vera þess eðlis að fjölmiðlar séu ekki sífellt að biðja um einhverja styrki og það sé hægt að samþykkja það eða synja. Það eru allir einróma um að það þurfi einhvers konar styrkjakerfi, annars vegar vegna þess að tungumálið okkar er svo lítið, rekstrarumhverfi fjölmiðla, markaðurinn, hann er svo lítill. Ég held að það hafi enginn komið fyrir nefndina sem taldi einhverja möguleika á því að halda hér á lofti fjölda einkarekinna fjölmiðla nema með einhverjum hætti með aðkomu ríkisins. Það er mikill samhljómur um þetta meðal umsagnaraðila.

Í ofanálag fórum við, líkt og hv. þingmaður kom inn á, (Forseti hringir.) í fræðsluferð til Noregs og Danmerkur og kynntum okkur hvernig hlutirnir eru gerðir þar í löndum (Forseti hringir.) og þar eru mjög viðamikil styrkjakerfi, ríkisstyrkjakerfi til fjölmiðla.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, þar sem röksemdirnar sem koma fram í meirihlutaáliti nefndarinnar (Forseti hringir.) standast eiginlega ekki: Hvers vegna eruð þið á móti styrkjakerfi, ef við tölum um varanlega styrki, fyrirsjáanlegt styrkjakerfi líkt og gengur á Norðurlöndunum?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti ítrekar enn og aftur ræðutímann.)