Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú bara að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og einmitt það sem hún sagði hérna áðan sem var akkúrat svarið fyrir þessa margumræddu setningu. Ég sé að hv. þingmaður skilur alveg hvað á bak við hana stendur. Aftur á móti heldur hv. þingmaður því fram að það hafi bara allir verið sammála um styrkjaumhverfið. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um það en stuðningsumhverfi eða það að rekstrarumhverfi hér sé með þeim hætti að hér geti frjálsir fjölmiðlar starfað, það held ég að við, ég og hv. þingmaður, getum verið sammála um. Það er alls ekki þannig — og það er hægt að vísa í umsagnir og heimsóknir frá einkareknum miðlum sem vilja bara ekkert með þessa styrki hafa og vilja ekki að ríkið sé að greiða beina styrki með þessum hætti.

Hættan við styrkjakerfið, ég var að reyna að fara yfir það í lok ræðu minnar, þar sem við erum núna að breyta því t.d. að staðbundnir miðlar geti komið út 12 sinnum á ári og þá séu þeir styrkhæfir. En hvað erum við að segja um það hvort þeir eiga að koma út sex sinnum, 12 sinnum, 15 sinnum eða 20 sinnum eins og er í núverandi reglum? Þetta er hluti af vandamálinu sem verður til við svona kerfi. Það hefur verið nefnt: Af hverju er Fótbolti.net svona mikilvægur fyrir lýðræðisumræðu að þeir eiga rétt á styrkjum úr þessu styrkjakerfi? Aðrir hafa nefnt Bændablaðið og velt því fyrir sér. Það eru þessar spurningar sem koma upp og gera það erfitt að vera með styrkjaumhverfi eins og við höfum verið með til bráðabirgða á meðan við erum að ná utan um heildarmyndina.

Og þegar hv. þingmaður spyr af hverju við erum svona mikið á móti því sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum, þá ítreka ég að það eru skiptar skoðanir um þetta. En stóra málið, og ég held að við sem þingheimur ættum að geta náð saman um það, er að við verðum að horfa á stóru myndina og t.d. það að taka bara styrkjaumræðuna út og fjalla ekkert um RÚV eða aðra þætti rekstrarumhverfisins, það sé óraunhæft. Þess vegna, eins og ég vísaði í áðan, er algerlega nauðsynlegt að við höfum stóru myndina, við setjum okkur heildstæða stefnu. Einmitt þannig náum við þessum fyrirsjáanleika sem ég er alveg sammála hv. þingmanni um að er mjög mikilvægur fyrir fjölmiðla.