Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að ég sé litlu nær, ég verð að játa það. Mig langar þá kannski að beina þeirri spurningu til þingmannsins annars vegar: Ef ríki sem eru að reyna að vernda sitt málsvæði og eru með 6–10 milljónir íbúa telja sig ekki geta viðhaldið viðunandi fjölmiðlaumhverfi án þess að vera með mjög viðamikið ríkisstyrkjakerfi, hvers vegna telur hv. þingmaður að það sé hægt á Íslandi í 300.000 manna samfélagi þar sem tungumálið er enn þá minna? Ég er sammála hv. þingmanni um að það þurfi að líta á heildarmyndina en það er alls ekki verið að gera það með þessu frumvarpi. Hér er verið að fara í það sem hv. þingmaður kallaði í sinni ræðu áðan bráðabirgðaúrræði á meðan fundnar eru varanlegar lausnir. En það er ekki eins og þessi ríkisstjórn hafi verið mynduð hérna í gær. Hvar eru þessar varanlegu lausnir? Þær eru enn þá bara í einhverjum starfshópum. Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi eru að deyja. Það er ekki eins og við höfum í rauninni neitt rosalega mikið svigrúm og mikinn tíma til að finna einhverjar lausnir. Fyrir utan að það er búið að leggja þær til margoft í skýrslum og í umsögnum. Fjölmiðlar eru farnir að öskurgrenja á lausnir og þar á meðal ekki bara einhverja styrki heldur líka, eins og hv. þingmaður kveðst vera opin fyrir, alls konar skattaívilnunum og óbeinum styrkjum og öðru sem myndi bæta þeirra rekstrarumhverfi.

Mig langar kannski til að fara út í annars vegar þessa spurningu: Hvers vegna telur hv. þingmaður að það muni ganga að vera ekki með neina beina ríkisstyrki hérna á Íslandi, sem ég átta mig enn þá ekki á hvers vegna er svona hræðilegt nema bara út af einhverjum hugmyndafræðilegum prinsippum sem menn bíta í sig, að ríkisstyrkir séu svo hræðilegir? Hvers vegna telur hún að það muni ganga í 300.000 manna samfélagi þegar það gengur ekki tíu milljóna manna samfélagi? Og síðan: Ef það eru komnar fram hugmyndir um varanlegar lausnir, aðrar en styrki, hvers vegna er ekki komið fram með það? Hvers vegna erum við í þessari bráðabirgðalausn endalaust, eins og hv. þm. Bergþór Ólafsson nefndi hérna áðan. Ég verð að taka undir með honum. Ég óttast að að ári liðnu verðum við hérna á sama stað, (Forseti hringir.) að finna enn aðra bráðabirgðalausn á vanda sem var okkur ljós fyrir tíu árum síðan.