Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og veit og sé að hún brennur fyrir þau málefni sem hún ræddi. Ég vildi bara árétta, svo að það komi skýrt fram, svo að orð mín hér áðan í andsvörum séu ekki mistúlkuð með einhverjum hætti, að auðvitað er það þannig að við höfum eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þess vegna held ég að það hafi farið í réttan farveg á sínum tíma þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um þetta mál. Það sem ég var að benda á í mínu andsvari er að mér finnst stundum hluti þingheims falla í þá gryfju að fara að tjá sig um mál sem eru kannski í frumrannsókn og við höfum takmarkaðar upplýsingar um. Ég bara horfi á svona heimildarþætti eins og þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið var hérna uppi og þingheimur og jafnvel ráðherrar fóru að tjá sig um það sem hefur augljóslega áhrif á hvernig svo lögreglan eða aðrir opinberir embættismenn starfa. Það sem ég er að reyna að halda fram er að við setjum lögin, við höfum eftirlit með framkvæmdarvaldinu en ég held að við þurfum að fara varlega í því, og kannski sérstaklega ráðamenn og ráðherrar, að tjá okkur um einstakar ákvarðanir embættismanna sem eru að fylgja lögum.

Aftur á móti, eins og hv. þingmaður kom inn á, varðandi lögbannsmálið var það svo dæmt ógilt og þá virkar kerfið með þeim augljósa galla, sem hv. þingmaður benti á, að það voru kosningar í millitíðinni. Ég er sjálf á þeirri skoðun að þetta lögbann hafi haft slæm áhrif en ég held að við séum ekki sammála um þau slæmu áhrif. Ég held t.d. að umfjöllun um þetta lögbann hafi haft slæm áhrif á flokkinn minn og niðurstöðu hans í kosningunum. Það var það sem ég upplifði úti á feltinu. Og mér þykir, virðulegur forseti, stundum eins og hv. þingmaður tali með þeim hætti að þeir sem kannski ekki þekki betur haldi að það hafi verið hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sem hafi með einhverjum hætti sett lögbann á þetta eða að ráðherrar hafi verið bak við þær aðgerðir sem áttu sér stað þegar farið var fram á lögbann. Ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að þingmenn og ráðherrar komi ekki inn í umræðuna með þeim hætti.