Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlafrelsi er mjög mikilvægt og algjör grunnstoð í okkar samfélagi og við eigum ávallt að standa vörð um það. Ég heyri að við hv. þingmaður erum ósammála um þá nálgun sem þingmenn og/eða ráðherrar eiga að hafa á slíka umræðu. Hv. þingmaður telur að það sé alveg ljóst að lögreglan sé ekki að framfylgja lögum. Ég er ekkert handviss um að það sé alveg ljóst. En það er nú þannig að dómstólarnir eru fullir alla daga af lögmönnum sem halda sitthvoru fram og á endanum mun koma í ljós hvort heldur sem er.

Hv. þingmaður var að ræða áðan Samherjamálið og vísar áfram í það með ummælum míns formanns sem ég held að hafi fyrst og fremst verið að gagnrýna þá umræðu sem skapaðist í kringum þetta. Ég hef tjáð mig hér í þessum ræðustól um það mál þegar það fyrst kom fram og ég ætla að treysta okkar kerfi, okkar lögum. Mútur eru bannaðar samkvæmt íslenskum lögum, alveg sama hvort þær eiga sér stað á íslenskri grundu eða erlendri. Þannig að ég ætla að treysta því að það kerfi sem við höfum byggt upp rannsaki þetta mál og komist að niðurstöðu um hvað átti sér stað hérna.

Ég ætla líka að segja að þar til það er þá ætla ég að draga mig í hlé frá að hafa þær skoðanir þegar rannsóknin sjálf er í gangi vegna þess að ég held að dæmin hafi sýnt það hér á fyrri tíðum að það geti verið lýðræðinu hættulegt þegar ráðamenn stíga inn með sínar skoðanir á málum sem eru í rannsókn. Það að embættismenn geti unnið sína vinnu og komist að sinni niðurstöðu án þess að það séu afskipti frá ráðherrum eða þingmönnum held ég að sé mjög mikilvægt lýðræðinu. Svo höfum við það regluverk að ef viðkomandi aðilar hafa ekki verið að fylgja lögum og reglum þá mun það koma í ljós og regluverkið okkar á að halda utan um það.