Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að við séum ósammála um innihald ummæla hæstv. fjármálaráðherra varðandi þessa rannsókn. Mér finnst eitt að hafa skoðun og svo annað að beita einhvers konar beinu boðvaldi til að hafa áhrif á rannsókn lögreglunnar. Mér finnst ég hafa fullan rétt á að hafa skoðun á því þegar lögreglan er að misbeita ákvæði sem var alveg skýrt að átti ekki að ná til vinnu fjölmiðla. Það er alveg skýrt að það er á grundvelli þessa ákvæðis sem lögreglan hefur gert þessa fjóra blaðamenn að sakborningum. Og ég vil að við aðgreinum þarna Samherjamálið sjálft, þar sem fulltrúar Samherja eru ásakaðir um að hafa mútað erlendum ráðamönnum með háum fjárhæðum fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni, og svo hins vegar hitt málið sem eru fjórir blaðamenn sem segja frá hvernig starfsmenn Samherja beittu sér gegn blaðamönnum, gegn öðrum aðilum í samfélaginu sem þeir telja að Samherja stafi ógn af. Ég veit ekki til þess að það sé nokkur rannsókn í gangi um allt það sem kom fram í þeirri umfjöllun. Það eina sem er til rannsóknar eru blaðamennirnir sem sögðu frá því. Það er það klikkaða í þessu og það er þess vegna sem ég er að benda á þetta sem hluta af starfsumhverfi fjölmiðla, vegna þess að þeir sem sögðu frá hneykslinu eru gerðir að sökudólgunum. Þetta er auðvitað bara mjög klassísk þöggunaraðgerð, við verðum bara að segja það eins og er; að finna blóraböggull, að skjóta sendiboðann. Það er nákvæmlega það sem er verið að gera með þessu.