Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér í þessa umræðu, að sjálfsögðu, um fjölmiðlana. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því sem hér hefur komið fram. Það hefur verið mjög áhugavert að vinna í þessu máli í nefndinni og það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með því síðustu sex árin eða svo hvernig þessi ríkisstjórn hefur reynt að krafla sig í gegnum það að gera fjölmiðlaumhverfi hér á Íslandi sem best. Þar er auðvitað margt sem þarf að laga, og ég hygg að við séum öll sammála um að þurfi að laga, en samstöðuna sem þarf til að stíga réttu skrefin er kannski ekki beint að finna innan þeirrar samsetningar sem er í núverandi ríkisstjórn, frekar en í svo mörgum öðrum málum.

Við erum auðvitað með stöðu einkarekinna miðla í fanginu og við þekkjum öll þá sögu. Þeim fækkar. Starfsmönnum fjölmiðlanna fækkar mjög. Tölurnar eru mjög sláandi. Bara frá 2018 og til loka árs 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum um 45% sem jafngildir 731 starfsmanni. Þetta kemur fram í umsögn Blaðamannafélags Íslands við fjárlög fyrir árið 2022. Svona tölur eru fyrir framan okkur þegar við erum að skoða þetta. Þetta er alþjóðlegur vandi. Fjölmiðlar víða um heim eru í vanda. Ástæðan er auðvitað einföld. Þetta er dýr útgerð í mjög mörgum tilfellum, það er dýrt að búa til vandað efni, sérstaklega frétta- og menningarefni ýmiss konar, ekki síst kannski fyrir sjónvarp, myndmiðlun. Það er bara veruleikinn sem er fyrir framan okkur. Á sama tíma og þetta verður oft dýrara vegna þeirra krafna sem áhorfendur gera þá er tekjumódelið hrunið vegna þess að menn eru mjög fráhverfir því að greiða fyrir svona efni, einfaldlega vegna þess að tækniumhverfið hefur breyst. Þetta eru því miklar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Núna skiptir auðvitað verulegu máli hvernig við bregðumst við. Beinn ríkisstuðningur til einkarekinna fjölmiðla getur ekki verið markmið í sjálfu sér en við hljótum að horfa til þess sem nágrannalöndin okkar hafa gert. Þar er stuðningsumhverfi fjölmiðla tiltölulega fjölbreytt og þar inni eru m.a. beinir styrkir til fjölmiðla. Hér hefur talsvert verið talað um þetta allt saman og til að mynda verið bent á að það sé ekki einfalt að styrkja t.d. fjölmiðla með beinum ríkisstyrkjum því að það þurfi þá auðvitað að búa til eitthvert kerfi um það. Hér hefur t.d. farið fram umræða um að kerfið geti verið of víðtækt, þ.e. að tilhneigingin verði til þess að búa til þannig kröfur inn í styrkjakerfið að það þynnist hálfpartinn út. Hér hafa menn verið að nefna ýmsa miðla í því samhengi, fótbolta.net og ég get hent inn Bændablaðinu líka. Eru þetta miðlar sem eiga að njóta ríkisstyrkja undir þeirri kríteríu sem við erum að fjalla um? Mér finnst það stundum vera álitaefni. Í tilfelli Bændablaðsins, sem er mjög vandaður og góður og efnismikill fjölmiðill, þá er þetta samt sem áður mjög afmarkað svið og það sama gildir um fótbolta.net. Við ákváðum við þessa vinnu að fara ekki mikið ofan í skilyrði styrkveitinganna. Þetta eru tímabundin úrræði núna og vonandi vinnst tími til að gera það kannski með markvissari hætti síðar. Ég held að það hafi verið algjörlega augljóst að við hefðum ekki náð saman um neinar sérstakar breytingar þar. En við í Viðreisn styðjum þetta frumvarp þótt við að sjálfsögðu verðum að gera athugasemdir við eitt og annað sem fram hefur komið við vinnslu þessa máls.

Ég ætla að fá að nefna hér, eins og margir hafa nefnt, þetta nefndarálit. Ástæðan fyrir því að ég ætla að nefna þetta nefndarálit meiri hlutans er að við erum að tala um fyrirsjáanleika í þessu umhverfi fjölmiðlanna. Fyrirsjáanlegt styrkjaumhverfi er gjarnan talað um af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er orðað þannig í nefndarálitinu, það er orðað þannig í kafla laganna, sem heitir Stuðningur við einkarekna fjölmiðla, að til að styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla skuli vera til staðar fyrirsjáanlegt stuðningskerfi. Þetta orð, fyrirsjáanlegt, er alls staðar að finna. Þetta hafa ráðherrar og þingmenn meiri hlutans mikið talað um. Nú er það þannig að þegar fjölmiðlar sem standa illa eru að velta fyrir sér fyrirsjáanleika og reyna að rýna eitthvað inn í framtíðina, þá hlusta þeir mjög vel eftir því sem ráðamenn þjóðarinnar segja, þeir hlusta mjög vel eftir því sem þingmenn segja t.d. í þessari umræðu og ég efast ekki um það eina einustu mínútu að þeir munu lesa þau nefndarálit sem hér liggja til grundvallar, einmitt til þess að reyna að átta sig á því hvert mál geta stefnt sem snúa að þeirra rekstrarumhverfi.

Ég hygg að þegar menn lesa þetta nefndarálit sjái menn að þrátt fyrir að markmiðið sé aukinn fyrirsjáanleiki þá er sá fyrirsjáanleiki laminn niður og tættur í sig með ótrúlega þversagnakenndu nefndaráliti. Það er ofureinfaldlega þannig að bæði nefndarálitið og það sem þingmenn flokkanna eru að segja hér tvist og bast gefur okkur ekki neina hugmynd um það hvert menn vilja stefna, ekki nokkra einustu hugmynd um það. Þetta úrræði er tímabundið, einfaldlega vegna þess að menn komu sér ekki saman um annað. Þetta hefur áður verið tímabundið vegna þess að menn hafa ekki komið sér saman um neitt annað og það er ekkert í spilunum sem bendir til þess að það sé að fara að breytast. Og ég hlýt að benda á, eins og fleiri hafa gert, að það sem stendur í nefndarálitinu sjálfu, þar sem er talað um að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla og styrkja lýðræðislegt hlutverk þeirra — og ég ætla að vitna beint í nefndarálitið eins og fleiri hafa gert, með leyfi forseta:

„Því telur meiri hlutinn mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla, en leitist við að gera það með óbeinum hætti, svo sem með því að fjölga tekjuöflunarmöguleikum þeirra eða með skattalegum ívilnunum. Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Það er samt sem áður þannig að fjölmargir þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn og hafa talað í hennar nafni hafa talað um að styrkir til einkarekinna fjölmiðla eigi að vera partur af rekstrarumhverfi þeirra til lengri tíma. Svo einfalt er það. Og nú er það talað niður í nefndaráliti þar sem þó er verið að leggja til að stuðningur til einkarekinna miðla verði í því formi að það séu beinir ríkisstyrkir. Þetta einhvern veginn fer í allar áttir og fyrirsjáanleikinn er enginn. Við höfum séð það í verkum ríkisstjórnarinnar og þetta nefndarálit sendir þau skilaboð mjög sterkt inn á fjölmiðlamarkaðinn að menn eru ekkert með það á hreinu hvert þeir ætla að fara. Menn geta auðvitað vísað í að það sé vinna í gangi í ráðuneytinu um hitt og þetta; það sé verið að móta fjölmiðlastefnu, það sé verið að skoða hver fyrirferð Ríkisútvarpsins eigi að vera á auglýsingamarkaði og það sé verið að skoða hvernig við ætlum að tækla streymisveitur. Þetta eru auðvitað allt afmarkaðir þættir. Það hefur nú þegar komið fram við vinnslu þessa máls að samráð um gerð þessarar fjölmiðlastefnu er ekki mikið. Það hefur komið fram í samtölum við þá sem komu fram fyrir nefndina, fulltrúa fjölmiðlanna, að þeir hafi ekki mikið verið spurðir um það hvað þeim finnist að eigi að gerast varðandi þá stefnu sem móta eigi til framtíðar. Þegar við erum með þetta allt fyrir framan okkur og það hvernig menn hafa í sex ár talað út og suður og ekki komið sér saman um neitt þá er algerlega augljóst að fyrirsjáanleikinn er enginn. Jafnvel þótt hann sé hér orð á blaði og meira að segja margoft nefndur þá er mjög holur hljómur í því öllu.

Ég hins vegar lít þannig á, og mér heyrist flestir vera sammála um það, að einmitt vegna þess hve vandinn er fjölþættur þá þurfi að skoða hann svolítið heildstætt. Þess vegna er forvitnilegt að minnast á ummæli og orðaskipti sem við þingmenn Viðreisnar áttum við hæstv. menningarráðherra fyrir um ári síðan þar sem við bentum á að það þyrfti að skoða þetta heildstætt og vorum þá að vísa í þingmál sem við þingmennirnir sjálfir erum með hér í þinginu um nákvæmlega það. Þá var sagt af hálfu ráðherrans að þess þyrfti ekki, að allar upplýsingar lægju fyrir, að þetta væri allt í skýrslu frá árinu 2018 — skýrslu sem nota bene ekkert var gert með. Það er búið að fara algerlega í U-beygju gagnvart þeirri skoðun ráðherrans þá. Nú á að skoða þetta heildstætt og fara yfir. Ég fagna þeirri afstöðubreytingu ráðherrans mjög svo vegna þess að þetta umhverfi er svo flókið. Samspil þessara þátta innbyrðis er svo mikið að við getum ekki alltaf verið að skoða þetta í einhverjum hólfum og einingum. En ég óttast að þessir starfshópar tveir, sem núna eru að störfum og eiga að skila af sér, að þröngt sjónarhorn þeirra í sitthvoru lagi verði til þess að við missum kannski pínulítið sjónar af heildarmyndinni.

Nú er það auðvitað þannig að þegar við erum að tala um þessa styrki til einkarekinna miðla og velta því fyrir okkur hvernig best er að koma því fyrir getur það verið svolítið flókið viðfangsefni. Hvernig skilyrðin eiga að vera er eitt. Það er auðvitað mjög flókið fyrir okkur að ákveða það þannig að allir verði sáttir og auðvitað verða ekki allir sáttir um það. Hitt er síðan þessi orðræða sem við erum að heyra hér, að beinir styrkir hljóti að vera af hinu slæma. Ég tel að þeir eigi ekki að vera markmið í sjálfu sér. Ég tel að þegar menn eru að tala um fyrirsjáanleika hljótum við að vera að horfa einhver ár fram í tímann en ekki bara á eitt fjárlagaár í einu eða tvö, að það hljóti að vera eitthvert grunnatriði sem við tölum um.

Síðan verðum við auðvitað að nefna eitt þegar við erum að tala um fyrirsjáanleika og áreiðanleika kerfisins sem við erum að reyna að byggja upp og það er að þegar menn koma síðan í fjárlaganefndinni og henda inn 100 millj. kr. styrk til eins fyrirtækis í fjárlagagerðinni, bara í skjóli nætur, þá er það auðvitað til þess fallið að menn hugsa: Bíddu, þetta er þá til hliðar við styrkjakerfið. Bíddu, hvert erum við að fara? Erum við enn þá í gömlu pólitíkinni þar sem við erum með eitthvert styrkjakerfi og svo er hægt að fara einhverjar hjáleiðir til að gera eitthvað allt annað? Það eru öll þessi vinnubrögð sem nákvæmlega gera það að verkum að fyrirsjáanleikinn gagnvart þeim sem starfa á þessum markaði er ekki neinn. Það er engin stefna vegna þess að menn eru ekki sammála um hvert eigi að fara og þá verður svona mikill losarabragur á öllum þessum málum.

Svo er auðvitað svolítið hjárænulegt að heyra hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, formann allsherjar- og menntamálanefndar, sem hefur leitt þetta starf í nefndinni og gert það að mörgu leyti mjög vel, nefna að það sé eitthvað mjög sérstakt að fótbolti.net eða einhverjir miðlar séu að fá beina styrki frá ríkinu þegar menn standa fyrir því að lauma 100 milljónum bak við til eins fjölmiðils, bara svo að dæmi sé tekið, og hafa þá skoðun, sem menn hafa sýnt í verki áratugum saman, og vitna ég þá í flokk hv. þingmanns og auðvitað Framsóknarflokkinn líka, að það sé ofsalega lítið mál að búa til styrkjakerfi til heilu atvinnugreinarinnar sem eru miklu, miklu stærri styrkir í upphæðum talið heldur en nokkurn tíma er talað hér um.

Þessir styrkir eru ekki markmið í sjálfu sér. Ef hægt er að búa til kerfi þar sem þessir styrkir þurfa ekki að vera þá er það auðvitað eitthvað sem við eigum að stefna að. En á meðan svo er ekki þá hljótum við að horfa til Norðurlandanna sem líta svo á að svona styrkjakerfi sé einfaldlega hluti af þeim kostnaði sem er við það að búa í lýðræðislegu samfélagi, þ.e. að fjölmiðlar séu bara nánast eins og aðrir innviðir, að þetta sé bara eins og partur af velferðarkerfi, þ.e. að samfélagið okkar virki ekki eins og við viljum að það virki ef öflugir fjölmiðlar eru ekki starfandi. Það er auðvitað bara alveg heilmikið til í þeirri hugsun. Við getum alveg velt því fyrir okkur hvað gerist áfram hér á þessu landi ef fjölmiðlar halda áfram að veikjast. Aðhaldshlutverk fjölmiðla er gríðarlega mikið, ekki bara gagnvart stjórnvöldum á hverjum tíma, aðhaldshlutverkið nær auðvitað líka inn í atvinnulífið, það nær líka til stjórnarandstöðu, til sveitarfélaga. Fjölmiðlar hafa meira að segja aðhald hver með öðrum. Svo er það eitt með fjölmiðlana, að því fjölbreyttari sem þeir eru, því betra. Það náttúrlega eykur miðlalæsi í landinu sem aftur er svo ákveðin frumforsenda þess að lýðræðið fái þrifist hér með ábyggilegum hætti.

Svo langar mig að nefna það sem er talað um Ríkisútvarpið í þessu nefndaráliti sem er vægast sagt áhugavert líka. Það er nefnt í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að áður en tekin er ákvörðun um grundvallarbreytingu á veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði þurfi að fara fram ítarleg rannsókn og greining á fjölmiðla- og auglýsingamarkaðnum í heild sinni til að tryggt sé að auknar auglýsingatekjur skili sér sannarlega til einkarekinna fjölmiðla hér á landi.“

Og svo kemur næsta setning:

„Meiri hlutinn telur aftur á móti að full ástæða sé til að endurskoða rekstur Ríkisútvarpsins hvað auglýsingadeildina varðar og telur æskilegt að hún verði lögð niður og auglýsendur geti pantað auglýsingar í gegnum vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrir liggur verðskrá sem ekki er veittur afsláttur af.“

Að halda því fram að þetta sé ekki grundvallarbreyting í rekstri Ríkisútvarpsins er alger firra. Ríkisútvarpið, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er á auglýsingamarkaði og það reiðir sig á tekjur af auglýsingamarkaði. Að henda þessu svona inn og ætla að gera þessa grundvallarbreytingu án þess að fram fari einhver rýni á því áður, eins og þó er talað um í setningunni á undan, er algjört glapræði, einfaldlega vegna þess að við vitum það alveg að Ríkisútvarpið hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Við getum endalaust tekist á um það hversu umfangsmikið hlutverk það er og hvernig eigi að fjármagna það og allt þar fram eftir götunum en starfsemi þess er byggð á lögum. Starfsemi þess er líka byggð og tryggð og undirbyggð í þjónustusamningi við ríkið og með því að fara í svona breytingu án nokkurrar rýni þá erum við auðvitað að auka hættuna á því að stór stofnun, sem hefur gríðarlega mikilvægt hlutverk í þessu samfélagi, geti þá mögulega ekki sinnt sínum lögbundnu skyldum. Það kom skýrt fram líka fyrir nefndinni, og það verðum við auðvitað að hafa í huga þegar við erum að skoða þennan heildarmarkað og Ríkisútvarpið og stöðuna, að ef við ætlum að þrengja fjárhagslega að Ríkisútvarpinu mun það auðvitað hafa áhrif á framleiðslu sjónvarpsefnis, það mun hafa áhrif á fréttavinnslu og það mun hafa áhrif á innlenda dagskrárgerð. Það er bara þannig að með dýrustu póstum í starfseminni þar er annars vegar fréttaþjónustan og hins vegar það sem snýr að leiknu íslensku efni og þetta er sennilega það efni sem við viljum einna helst standa vörð um hér í þessum sal..

Þegar er verið að búa til einhvers konar samkomulag á milli flokkanna um að senda út skilaboð í baklöndin sín í gegnum þetta nefndarálit þá verður það að slíkri moðsuðu að það veitir mönnum ekki eina einustu vissu fyrir því að menn hafi einhverja hugmynd um hvert eigi að stefna. Og gott og vel, við erum ekkert endilega sammála um hvernig eigi að byggja upp umhverfi fjölmiðlanna, við þurfum ekkert endilega að vera sammála um það, en að vera saman í ríkisstjórn og móta stefnu og hafa meiri hluta til þess að hrinda henni í framkvæmd, það kallar auðvitað á það að menn sýni ábyrgð og að menn sendi út skilaboð sem rugli ekki allt og geri í raun og veru illt verra líkt og hér er. Þó að málið sjálft sé ágætt þá verð ég að segja alveg eins og er að það er ansi margt í kringum það sem hægt er að gagnrýna.

Nú er það líka þannig að menn hafa verið að nefna hér önnur dæmi sem hægt er að koma með til að efla fjölmiðla, til að mynda einhvers konar úrræði í gegnum skattkerfið, einhvers konar úrræði hvað varðar það að leyfa auglýsingar sem núna eru bannaðar, að það gæti mögulega styrkt einkarekna miðla. Allt þetta finnst mér mjög vel koma til skoðunar en mig langar samt að við séum ekki að fara í einhverjar veigamiklar breytingar öðruvísi en að hafa reynt að hafa fast land undir fótum og reynt að sjá og skoða og hafa einhverja fullvissu fyrir því að breytingarnar sem við ætlum að fara í hafi nákvæmlega þau áhrif sem við viljum en geri ekki illt verra, eins og til að mynda það myndi gera að taka RÚV af auglýsingamarkaði í von um að tekjurnar renni eitthvert annað en svo yrði kannski staðan sú sama og á Spáni og í Frakklandi þar sem það gerðist einmitt ekki, þar sem ríkisútvarpið var tekið af auglýsingamarkaði en tekjurnar runnu ekki til einkamiðla. Þá erum við í raun og veru búin að veikja eina stoð fjölmiðlanna á Íslandi sem Ríkisútvarpið er án þess að það styrki hinar. Ég hlýt að vonast til þess að við séum öll sammála um að það sé ekki endilega leiðin.

Hitt er síðan annað að Ríkisútvarpið á ekki að vera einhver fasti og óumbreytanleg stærð um aldur og ævi. Við getum farið vel og vandlega ofan í þá vinnu hvort skekkjan hvað varðar Ríkisútvarpið sé orðin það mikil að við þurfum að grípa inn í. En í guðanna bænum, við skulum hafa fast land undir fótum áður en við förum í breytingarnar en ekki henda fram einhverjum hugmyndum og hvað þá að hrinda þeim í framkvæmd áður en við höfum kannað hverjar mögulegar afleiðingar yrðu af því.

Svo hafa menn auðvitað talsvert talað hér líka um starfsumhverfi fjölmiðla þegar kemur að samskiptum við löggæslu, samskiptum við dómstóla hvað varðar tjáningarfrelsi fjölmiðlanna og þau mál öllsömul. Í því samhengi langar mig að nefna að það er ekki gott þegar fjölmiðill fer af stað með miklar afhjúpanir og sá sem er afhjúpaður og er í framhaldinu til rannsóknar bregst við með þeim hætti sem við sáum gerast hjá Samherja þegar þau mál voru í brennidepli. Með því er ég ekki að taka afstöðu til þess hvort fyrirtækið sé sekt eða ekki, það á að leiða til lykta á réttum stað, en við hljótum að senda svolítið skýr skilaboð út til samfélagsins um að stórar valdablokkir eigi ekki að beita sér með þessum hætti því að það bitnar á lýðræðislegri umræðu og það bitnar á fjölmiðlum sem eru að reyna að sinna þessari lýðræðislegu umræðu, jafnvel þótt það kunni á einhvern hátt, í einhverju skrýtnum mati, að vera hjá stjórnendum fyrirtækja þannig (Forseti hringir.) að það geti styrkt stöðu viðkomandi fyrirtækisins í einhverju ímyndarstríði. En það er efni í miklu lengri umræðu.