Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni svarið og langar einmitt að beina næstu spurningu minni að RÚV því að það var nefnt hér. Ég er sammála því að þetta er stór mynd og mér heyrist við hv. þingmaður vera svolítið sammála um að þetta eru mörg púsl sem þarf inn í púsluspilið, þetta er ekki bara einhver ein lausn.

Þá langar mig líka að spyrja hv. þingmann: Þrátt fyrir að sumir hafi tjáð sig með þeim hætti að það sé óþolandi að ekki sé hægt að tala um fjölmiðla öðruvísi en að RÚV komi upp í umræðunni, þykir samt ekki hv. þingmanni mikilvægt að það sé horft líka til RÚV þegar verið er að ræða um þennan markað, verandi langstærsti fjölmiðillinn?

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður virtist óttast mjög það sem lagt er hér til, að auglýsingadeild RÚV yrði lokað þannig að það væri bara hægt að kaupa auglýsingar í gegnum vefinn. Ég verð að viðurkenna að mér þykir það ekki nein grundvallarbreyting á þeirri stöðu að RÚV er þá enn þá á auglýsingamarkaði. Auglýsendur eiga þá enn þá tækifæri til að ná til hlustenda og áhorfenda RÚV en á sama tíma eru þeir ekki að stunda þessa agressífu sölumennsku eins og samkeppnisaðilarnir gjarnan lýsa.

Þannig að spurning mín til hv. þingmanns er: Er ekki rétt að RÚV sé hluti af þessari umræðu og kann ekki að vera að sú málamiðlun, sem er lögð til einmitt í þessu nefndaráliti og hæstv. ráðherra hefur talað fyrir, sé kannski bara býsna góð lending og hafi ekkert með grundvallarbreytingu að gera en nái kannski utan um bæði þau sjónarmið sem hafa verið á lofti?

Svo langaði mig að segja við hv. þingmann, því að ég verð að viðurkenna að þessi þingsályktunartillaga sem hann er fyrsti flutningsmaður á og hann var að vísa í hér áðan varðandi heildarendurskoðun rekstrarumhverfis fjölmiðla, ég kannaðist ekki við hana, enda sé ég að það hefur ekki enn verið mælt fyrir henni og það er ekki svo langt síðan hún var lögð fram. Þannig að ég hefði nú bara hvatt hv. þingmann til að leggja hana fram fyrr. Það hefði verið gaman ef þetta hefði verið forgangsmál Viðreisnar og við hefðum haft það jafnframt til umfjöllunar í nefndinni.