Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:36]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu og ég get alveg tekið undir með honum hvað markmiðið varðar. En það sem snýr að upplýsingaóreiðu væri svolítið fróðlegt að ræða aðeins nánar af því að mér finnst stundum vera brögð að því að það sé uppi ákveðinn vilji til að útiloka sum sjónarmið. Ef við tökum bara umræðu t.d. um Covid þá voru ýmsar spurningar og ýmis sjónarmið á lofti, alls kyns, og ég verð að segja að eins og það var þá svöruðu menn þeim málefnalega og yfirvegað. Þá styrktist í rauninni grundvöllur stefnunnar. Maður er svolítið smeykur við það tal sem er núna komið af stað í samfélaginu, að það eigi að stimpla jafnvel einhver sjónarmið sem óreiðu í stað þess að svara athugasemdunum og vitleysunni, eða hvað það er, efnislega. Mér finnst það kannski vera aðalmálið. Það er lykillinn að því að fá fram gott samtal í samfélaginu og ég hræðist það örlítið og það væri áhugavert að fá aðeins fram sjónarmið Pírata hvað það varðar. Ég held að leiðin sé að svara hlutunum efnislega og yfirvegað. Þá styrkist sá grunnur sem er fyrir í samfélaginu og sú stefna sem uppi er.