Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[19:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi fyrri hluta spurningarinnar, þ.e. 5. gr. þar sem segir að við útgáfu nafnskírteinis, sem telst ekki gilt ferðaskilríki, til umsækjanda sem er yngri en 13 ára skuli liggja fyrir samþykki þess sem fer með forsjá barnsins og nægir þá samþykki annars forsjáraðilans, þá held ég að þetta sé alveg nægjanlega íþyngjandi þegar um er að ræða nafnskírteini, sem er ekki ferðaskilríki. Ástæðan fyrir því að gerð er krafa um báða forsjáraðila þegar um er að ræða vegabréf er vegna þess að það er gilt ferðaskilríki og við viljum auðvitað koma í veg fyrir að foreldri geti ferðast með barn sitt án samþykkis hins forsjáraðilans. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að það kann að vera nauðsynlegt að afla skilríkja fyrir viðkomandi barn og það er kannski óþarfi að gera kröfu um að báðir foreldrar skrifi undir það.

Hvað seinni spurninguna varðar, um þá sem eiga nafnskírteini í dag, þá hlýtur það, ef það er eina skilríkið, að vera grunnur að því að geta sótt um nýtt nafnskírteini. Það sem gömlu nafnskírteinin hafa auðvitað ekki eru þessar lífkennaupplýsingar sem við fjölluðum töluvert um, m.a. vegna athugasemda Persónuverndar sem snerust um hvernig þær væru geymdar og hversu lengi. Það komu mjög góðar og gildar ástæður fyrir því hvers vegna þurfi að geyma þær í þennan tíma því að það þarf að vera hægt að bera kennsl á viðkomandi og tryggja að sá sem sækir um nýtt skilríki sé örugglega sá sem hann segist vera. Þegar við tölum um lífkennaupplýsingar þá erum við að tala um fingrafar í þessu tilfelli og það er ekki það sem fylgir þessu gamla. Auðvitað er grunnurinn sá, ef það er eina skilríkið sem gefið hefur verið út, að það hljóti að vera tekið gilt, en á sama tíma fást líka lífkennaupplýsingar.