Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[19:24]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um nafnskírteinin. Þegar ég fékk frumvarpið í hendur í fyrsta skipti og las 1. gr., sem hljómar svo, með leyfi forseta: „Réttur til nafnskírteinis. Íslenskur ríkisborgari, sem uppfyllir skilyrði þessara laga, á rétt á að fá gefið út nafnskírteini samkvæmt umsókn …“ — o.s.frv., þá vöknuðu þarna viðvörunarbjöllur.

Við vinnslu málsins í nefndinni höfðum við af því talsverðar áhyggjur að í samfélagi sem meira og minna byggir orðið á því að fólk sé með rafræn skilríki og geti raunverulega ekki tekið þátt í mjög mikilvægum athöfnum sem snúa að heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og ýmsu öðru nema að vera með rafræn skilríki, værum við með þessu að útiloka ákveðinn hóp fólks og vil ég þar nefna fólk á flótta. Við vinnslu málsins gerðist það svo að undirrituð var af hæstv. ráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, breyting á reglugerð nr. 100/2020, um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, þar sem dvalarleyfiskort útgefin af Útlendingastofnun geta dugað til að afla sér rafrænna skilríkja. Ég vildi bara koma hingað upp og árétta að í samfélagi þar sem tækniþróun og kröfur eru á fleygiferð er svo mikilvægt að við séum aldrei að skilja einhverja ákveðna hópa eftir og gera þeim ókleift að taka þátt í samfélaginu eins og við viljum byggja það upp.