154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

viðbrögð lögreglu vegna mótmæla.

[15:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinni spurningu. Mér þykir vert að ítreka það, svo að það valdi engum misskilningi, að hv. þingmaður fótbrotnaði nú ekki í þessum mótmælum sem (ÞSÆ: Ég sagði að þau gætu labbað á milli staða …)þarna áttu sér stað. Það mætti misskilja orð hv. þingmanns í þá veruna og svo er alls ekki.

Ég vil leggja aftur áherslu á það að rétturinn til mótmæla er stjórnarskrárvarinn og einnig í mannréttindasáttmála Evrópu og það telst til grundvallarréttinda í lýðræðislegu samfélagi að mótmæla. Það er rétt hjá hv. þingmanni og því er ég sammála. Það sama gildir um réttinn til að koma saman með friðsömum hætti. Þar fellur rétturinn til mótmæla undir en réttur fólks takmarkast við að mótmæli séu friðsamleg og þann rétt eigum við að sjálfsögðu að standa vörð um.