154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

lækkun verðbólgu og vaxta.

[15:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að taka samtal við fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra sem var í þessari sömu ríkisstjórn. Verðbólgan er að hækka og það er ekki af því að ekkert sé að gerast. Það er einmitt undirliggjandi enn þá þannig stjórnun fjármála, m.a. ríkisfjármála, sem leiðir til þess að við erum enn að glíma við verðbólgu. Það erum ekki bara við í Viðreisn sem erum benda á það, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ítrekað búinn að segja að fjármálaáætlunin sé ótrúverðug leið til þess að lækka verðbólgu. Við þurfum trúverðugra plagg sem veitir okkur leiðsögn inn í það og m.a. svigrúm fyrir Seðlabankann til að lækka vexti. Ég vil líka benda á að mér finnst stundum að ráðherrar, sumir hverjir, í ríkisstjórn fari ekki fram úr rúminu öðruvísi heldur en að krefjast 3, 4 og 5 milljarða aukningar í ríkisútgjöld. Við erum líka með fjármálaáætlun sem sýnir fram á að það er fjárlagahalli alla vega fram til ársins 2028. Þessi ríkisstjórn er ekki bara að skila fjárlagahalla yfir á næstu kynslóðir (Forseti hringir.) heldur líka fyrir næstu ríkisstjórn til að leysa úr. Það sem ég er einfaldlega að biðja um er, og ég mun styðja hæstv. ríkisstjórn í því: (Forseti hringir.) Komið með trúverðuga leið til þess að draga úr útþenslu ríkissjóðs, komið með trúverðuga leið til að við getum lækkað verðbólgu. Það er í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.