139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður nefndi í lok ræðu sinnar, um skil á uppgjöri viðkomandi stofnana hjá ríkinu til að hægt sé að gera þetta. Vinnuferlið er þannig í dag að það þarf að stytta tímann, hvort 15. janúar er nóg skal ég ekki fullyrða, það skiptir ekki öllu máli hvort það er 15. janúar eða 1. febrúar eða 15. febrúar. Aðalatriðið er þó að það sé áður en farið er í gerð fjárlaga, áður en fjármálaráðuneytið fer í að undirbúa fjárlög eins og núna fyrir árið 2012 en þá er í raun og veru verið að koma inn með lokafjárlög og þess vegna fer það aftur fyrir þegar menn fara að vinna í fjárlögunum. Það verður að breyta vinnuferlinu þannig að þetta sé klárað og skýrsla Ríkisendurskoðunar komi fram og áritun á ríkisreikningi til að hægt sé að ljúka fjárlagaárinu á undan og áður en menn byrja raunverulega á fjárlagaárinu á eftir. Þessum vinnubrögðum verður að breyta. Öðruvísi náum við aldrei neinum tökum á þessu og þurfum að eyða hér löngum tíma í að rífast um hvort fara eigi 10 milljónir, 1 milljón eða 500 þúsund hér eða þar þegar sjálfkrafa (Forseti hringir.) fara út úr kerfinu margir, margir milljarðar.