140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:46]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum ræðuna. Ég er raunar ósammála honum um margt, ég er mjög ósammála honum í grundvallaratriðum og málflutningi margra samflokksmanna hans sem mér sýnist að sé bara ætlað að ala á ósætti og andúð innan samfélagsins með því að margítreka það að tilteknir stjórnmálaflokkar sem eru í stjórn reyni að auka andstöðu og koma af stað styrjöld milli höfuðborgar og landsbyggðar. Því er ég hjartanlega ósammála, ég tilheyri engum slíkum hópi og hef aldrei gert. Mér finnst umræðan raunar vera komin niður fyrir öll velsæmismörk þegar svona er talað.

Ég veit að hv. þingmaður er vel upplýstur og lesinn um útgerðina á Íslandi og tjáir sig þannig. Þess vegna vildi ég spyrja hann einnar spurningar og hún er þessi: Hver hefur meðalhagnaður íslenskra útgerðarfyrirtækja verið fyrir skatt, eigum við segja síðastliðin fimm ár? Hve mikill hefur hann verið að meðaltali síðastliðin tíu ár? Ef þessi árabil henta ekki getur þingmaðurinn valið önnur árabil svolítið nær okkur í tíma.