140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:14]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Ég fór yfir það í ræðu minni í gær hver þessi grundvallarágreiningur er á milli okkar, getum við sagt, svona hugmyndafræðilegur, um tilurð einkaeignarréttar og hvernig honum skuli ráðstafað eins og þá kom fram, sem ég vona að þingmaðurinn hafi hlustað á því að ég gerði máli hans góð skil í ræðu minni, að þar er ég ekki sammála honum. Ég er sem sagt ekki sammála því að ég geti átt hús, leyft öðrum afnot af því og að sá afnotaréttur viðkomandi aðila verði ævarandi eign hans. Það er og verður leiguréttur, óbein eignarréttindi. Þannig hef ég kosið að skilgreina það.

Aðallega vildi ég benda á að menn hafa oft og tíðum tekið upp ágreining um hvað sé þjóðareign og spurt að því, stundum meira að segja með þjósti. Ég held að hollt væri fyrir þá sem þannig spyrja að lesa sig í gegnum stutt og mjög aðgengileg fræðirit sem hægt er að nálgast á vef Alþingis úr þingræðum þar sem vitnað hefur verið til dæmis til nefndarálita sem dr. Gunnar Thoroddsen samdi við breytingar þegar hann var formaður stjórnarskrárnefndar frá 1973–1983. Vísa má til ræðu hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, þegar hann lagði fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni, og síðast en ekki síst til þeirrar samantektar sem dr. Jóhannes Nordal gerði síðast á árinu 2000. Við skulum ekki þvæla okkur í ágreining um þetta. Ég er því ekki sammála þingmanninum um að þarna sé einhver vafi á.