140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hefur verið sagt við þessa umræðu, sjávarútvegsumræðuna, hún hefur ótrúlega lítið breyst. Ég held að ég hafi tekið þátt í hinni pólitísku umræðu um sjávarútvegsmál í rúmlega 20 ár, allar götur frá því að ég kom fyrst á þing, 1991. Sjávarútvegurinn allur hefur gjörbreyst, vinnslan, veiðarnar, markaðsstarfið, vöruþróunin og allt sem tilheyrir. En það er eitt sem ekki hefur breyst og það er umræðan um sjávarútveginn, hún hefur staðnað, hún hefur fest þar sem hún var árið 1991 og menn eru enn allt of fastir í sama farinu og tala eingöngu um veiðihlutann af allri þeirri miklu virðiskeðju sem sjávarútvegurinn er.

Það vekur meðal annars með manni ugg í þessu frumvarpi að svo virðist sem menn hafi lítið lært. Lagt er fram frumvarp sem ætlað er að gera miklar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsins, annars vegar með því að breyta leikreglunum á markaðnum sjálfum, t.d. með því að vaða inn í aflahlutdeildirnar og eyðileggja það kerfi sem við höfum byggt upp sem sannarlega hefur skilað miklum árangri. Um það bera allir vitni sem hafa skoðað þetta, innlendir auðlindahagfræðingar, erlend fræðirit o.s.frv. Hins vegar er hið mikla veiðigjald sem núna er verið að setja á. Hvorki var lagt efnahagslegt né rekstrarlegt mat á það hver áhrifin yrðu áður en frumvörpin voru lögð fram.

Nú hefur stærsti viðskiptabanki sjávarútvegsins, Landsbanki Íslands, lagt sitt mat á þetta. Og hver er niðurstaðan? Hann hefur skoðað afkomu 124 fyrirtækja sem eru með um 90% kvótans og komist að þeirri niðurstöðu að ef þessi frumvörp yrðu samþykkt mundu 74 þeirra fara á hausinn. Hjá þeim 74 fyrirtækjum vinna 4 þús. manns. Nú segja menn kannski: Það er allt í lagi, þessi fiskur verður veiddur og þessi 4 þús. störf verða til. En hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þessi staða muni kollvarpa byggðunum, geti gert það að verkum að þessi (Forseti hringir.) 4 þús. störf yrðu unnin einhvers staðar annars staðar? Og hvert er álit hv. þingmanns á þeim sjónarmiðum að það skipti ekki máli þó að 74 fyrirtæki fari á hausinn og 4 þús. manns missi vinnuna sína, það verði til vinna einhvers staðar annars staðar í staðinn?