144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

frumvarp um afnám gjaldeyrishafta.

[11:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég neyðist til að nota örlítinn tíma til að leiðrétta rangfærslur sem hæstv. fjármálaráðherra fer hér með um að upptaka þrepaskipts skattkerfis hafi hækkað skatta á lægstu laun. Það er akkúrat öfugt. Með innleiðingu á lágtekjuþrepinu var unnt að hlífa lágtekjufólki algerlega við skattahækkunum sem aðrir urðu að bera og rúmlega það eins og rannsóknir sýna.

Ég ætla að inna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eftir stöðu vinnunnar um afnám gjaldeyrishafta. Ég ætla ekki að elta hæstv. ráðherra uppi vegna margendurtekinna yfirlýsinga um að á næstu mánuðum eða næstu sex mánuðum verði tekin stór skref. Síðastliðna 18–24 mánuði hefur hæstv. fjármálaráðherra endurtekið verið með slíkar yfirlýsingar og mér telst til að slíkir sex mánuðir séu svona þrisvar sinnum liðnir. Þaðan af síður ætla ég að minna á yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra, sem hann gaf fyrir réttum tveimur árum síðan, um að í september 2013 mundi ný áætlun um afnám hafta líta dagsins ljós. Að undanförnu hefur verið talað ákveðið um að frumvarp um einhvers konar skatt sem hæstv. forsætisráðherra skírði stöðugleikaskatt á flokksþingi sínu sé að koma til þingsins og jafnvel fullyrt undir það síðasta að slíkt frumvarp eða frumvörp muni koma hingað í þessari viku. Þá ber svo við að svokölluð samráðsnefnd um afnám hafta hefur ekki verið kölluð saman í meira en mánuð. Það sem átti væntanlega að vera eiginlegt samráð um þetta risavaxna og þjóðhagslega mikilvæga verkefni hefur því dáið út og er ekki einu sinni orðin upplýsingamiðlun.

Ég spyr í fyrra lagi: Hverju á það að sæta ef fullbúið frumvarp er bara í höndum ríkisstjórnarinnar og á leiðinni til þingsins væntanlega í dag ef þessi vika á að standa eða allra næstu daga? Það er ekki seinna vænna því að í dag átti þingið að ljúka störfum. Að öðru leyti: Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur nákvæmlega um stöðu málsins núna? Var frumvarp afgreitt í ríkisstjórn í morgun? Er það að koma til þingsins (Forseti hringir.) eða hver er staðan?