144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að mér þykir mjög mikilvægt að við sinnum sérstaklega viðhaldsverkefnum á næstunni um leið og við lítum til nýframkvæmda. Á þessu ári gerum við ráð fyrir að samkvæmt áætluninni fari í þetta vel á sjötta milljarð, eins og hún er lögð upp í viðhaldsverkefni. Svo bætum við aðeins í, sérstaklega núna. Ég held að þarna sé um að ræða afar brýnt verkefni. Það á við bæði um viðhaldsverkefni á þéttbýlustu stöðunum á landinu og líka um allt land. Ég held að það muni skila miklu. Þetta eru fjármunir sem er vel varið, mjög vel varið, þannig að ég held að það sé af hinu góða. Það breytir hins vegar ekki því að það er óskaplega mikið verk óunnið, alls konar smærri framkvæmdir líka, sem ég hef áhuga á að geta sett meira á oddinn og birtist að vissu leyti núna en gæti birst betur og vonandi getur það gerst seinna að við getum farið í þessi litlu verkefni hér og þar um landið sem skipta svo miklu máli í tengslum við minni sveitarfélög og líka alls kyns verkefni á ferðamannastöðum sem einnig eru undir (Forseti hringir.) yfirráðasvæði samgönguáætlunar. Það væri óskandi ef við gætum (Forseti hringir.) með tímanum sett frekari fjármuni í slíka hluti.