144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[16:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sömuleiðis fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun. Ég ætla að nota þetta tækifæri og ræða almennt um hana, ég ætla ekki að fara mikið ofan í einstaka þætti hennar þótt ég lofi nú ekki að sleppa því alveg.

Ég tel að í samgöngumálum í heild sinni megi kannski fyrst segja að það sé einn þáttur sem við þurfum að forgangsraða fjármunum meira til og það er innviðauppbygging og hún er það mikilvæg að við þurfum að taka fjármuni annars staðar frá til þess að setja í þann málaflokk. Í mínum huga snýst þetta um allar samgöngur eins og kemur fram í þessari áætlun. Ég er sérstaklega upptekinn af samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík. Þar eru að mínu áliti allar samgöngur jafn réttháar, hvort sem það er umferð hjólandi, gangandi eða keyrandi. Ég veit ekki af hverju margir líta svo á að þetta séu aðskildir þættir og það þurfi að gera upp á milli þeirra. Ég sjálfur bæði geng, hjóla og keyri og vil gjarnan gera það með sem öruggustum hætti og ég get ekki séð af hverju menn þurfa að skipta sér í lið hvað það varðar. Reyndar er mér alveg fyrirmunað að skilja af hverju sumir gera það.

Það sem mér finnst vera útgangspunkturinn þegar við gerum samgönguáætlun er öryggi. Á mörgum sviðum höfum við náð mjög langt þegar kemur að öryggismálum, við höfum lagt sérstaka áherslu á að fækka sjóslysum og flugslysum og er það vel. Þar eru sérstakar rannsóknarnefndir sem fara yfir hvert einasta slys til þess að læra af þeim og til að reyna að koma í veg fyrir að þau gerist aftur, en það vantar nokkur mikið upp á að við gerum það þegar kemur að akstursumferð og umferð almennt og svo sem líka umferð hjólandi og gangandi. Þá vil ég vekja athygli á því enn og aftur að það er til sérstakt kort sem sýnir hvernig er búið að taka út alla vegi á landinu varðandi öryggisþætti. Það var gert eftir að ég hvatti þáverandi hæstv. ráðherra Sturlu Böðvarsson til að fara í nokkuð sem heitir EuroRAP-verkefnið, verkefni sem Ólafur K. Guðmundsson hefur haft forgöngu um, en hann er landsþekktur fyrir afskaplega mikla elju í því að berjast fyrir umferðaröryggi. Það er búið að taka út flesta ef ekki alla vegi á landinu og við getum séð hvaða vegir eru hættulegir og hvað við getum gert til þess að minnka hættuna á þeim vegum.

Nú gæti einhver haldið að þetta snerist allt um bílstjórana, snerist um að fólk keyrði varlega og það er auðvitað mjög stór þáttur. En í þeim löndum sem hafa náð hvað lengst í umferðaröryggismálum hefur verið sýnt fram á það, og í flestum ríkjum, að hönnun mannvirkja skiptir gríðarlega miklu máli, í þessu tilviki hönnun umferðarmannvirkja. Þegar við togumst á um hin ýmsu samgöngumannvirki — eins og við gerum eðli málsins samkvæmt, við erum fulltrúar okkar kjördæma og ég sé ekkert óeðlilegt við það að fulltrúar einstakra kjördæma bendi á það sem miður hefur farið í þeirra kjördæmi og vilji úrbætur og þá eru samgöngur auðvitað stór þáttur — þá mundi ég gjarnan sjá meira tekist á um að leggja niður vegi og samgöngumannvirki sem eru ekki örugg, þau leynast víða.

Eitt svæði sem segja má að ekki sé neinn fulltrúi fyrir, alla vega er á því svæði enginn til að kjósa, er hálendið okkar. Ég sakna þess og hef áhyggjur af því að við séum ekki að ræða um hálendisvegi eins og við ættum að gera, að minnsta kosti hef ég ekki orðið mikið var við það í umræðunni. Í mínum huga er þetta svona, virðulegi forseti: Hálendið er gríðarlega verðmætt. Það eru ekki efnislegar eignir, það er bara upplifun í sjálfu sér að vera á hálendi Íslands. Og upplifunin felst í því að mínu áliti að stærstum hluta þegar maður keyrir t.d. um hálendið að þá er keyrt eftir ákveðinni tegund vega. Þetta eru slóðar sem eru ekki merkilegir í því samhengi, en það gefur ákveðna upplifun. Það eru uppi raddir um að við ættum að byggja upp vegina á hálendinu, við ættum bara að byggja upp og hafa malbikaða vegi. Ég fullyrði að þá erum við búin að skemma mjög þá upplifun sem felst í því að vera á hálendi Íslands. Þetta eru safarívegir, þetta er nákvæmlega eins og við sem höfum farið í safarí í Afríku höfum upplifað. Það eru til vegir á hálendinu, t.d. í kringum Kárahnjúka, sem eru uppbyggðir og malbikaðir og þegar maður fer yfir þá vegi á þeim slóðum er það ekki sama upplifun, það er allt annað mál. Við eigum að halda í þessa upplifun af hálendinu og við eigum að ákveða hvaða svæði við ætlum að vernda frá uppbyggðum vegum. Við verðum að gera það strax því tíminn líður hratt og ef við ætlum að byggja upp vegi, og ég hef á tilfinningunni að það sé gert svona hljóðlega frekar en meðvitað, þá eyðileggjum við ýmsa þætti.

Ég nefni að núna t.d. varðandi áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu samgöngumannvirkja er verið að tala um Uxahryggi og Kaldadal. Það á sér að vísu svolítið aðra sögu að því leytinu til að það mun hafa mjög miklar framfarir í för með sér fyrir ferðaþjónustuna ef við búum til ákveðna hringvegi og tengingar við þessi svæði. Ég er ekki endilega að segja að það megi alls ekki fara í uppbyggingu á þeim vegum, ég er ekki að segja það, ég er bara að segja að við verðum að líta á þetta heildstætt og við verðum að ákveða hvað við ætlum að vera með á þessum svæðum. Sprengisandur er til dæmis í mínum huga vegur sem má alls ekki byggja upp eða malbika, því síður að þar verði reist raflínumöstur. Það yrði mikið umhverfisslys sem ég vil gera hvað ég get til að koma í veg fyrir.

Virðulegi forseti. Aftur í höfuðborgina. Við eigum ekki einu sinni umferðarlíkan af höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. ekki síðast þegar ég vissi. Við verðum að fá öruggari umferð á höfuðborgarsvæðinu, greiðari umferð, við verðum að fá betri nýtingu á stóru umferðaræðunum. Við sem búum í efri hverfum borgarinnar vitum hvernig ástandið er á hverjum degi. Áhersla núverandi borgarstjórnar Reykjavíkur á að koma í veg fyrir að farið sé í nýframkvæmdir í Reykjavík er alveg óþolandi. Þetta snýst ekkert alltaf um stórar umferðaræðar eða mislæg gatnamót eða eitthvað slíkt, það snýst bara um nokkuð heilbrigða skynsemi. Á þeim tímum sem mesta umferðin er þá getum við t.d. sleppt vinstri beygju á ákveðnum stöðum, bara svo lítið dæmi sé tekið. Við getum líka skipulagt opinbera vinnustaði þannig að allir séu ekki að fara í vinnuna á sama tíma. Þetta heitir heilbrigð skynsemi. Við verðum að ná betri nýtingu á stóru umferðaræðunum.

Það verður gríðarlega mikið af slysum í Reykjavík, ekki á höfuðborgarsvæðinu. 43% af slysum í umferðinni verða í Reykjavík, ekki á höfuðborgarsvæðinu, bara í Reykjavík. Og það er hægt að koma í veg fyrir það með því að taka út með skipulegum hætti þau svæði og þá staði þar sem mestu slysin verða. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því. Umferð í Reykjavík skiptir máli. Hún skiptir alla máli. Hún skiptir alla landsmenn máli. Og að það séu 43% af slysum í umferðinni séu í Reykjavík er vegna þess að við erum ekki að vinna vinnuna okkar. Ég veit að hæstv. ráðherra er mér hjartanlega sammála. Hún er í baráttu við meiri hlutann í Reykjavík þegar kemur að þessu. Það er auðvitað mjög sérstakt og slæmt fyrir okkur Reykvíkinga að kjörnir fulltrúar okkar í borgarstjórn skuli ekki gæta hagsmuna okkar betur en raun ber vitni. Ég stend við það hvar og hvenær sem er og sá samningur sem var gerður um að fara ekki í neinar nýjar framkvæmdir í Reykjavík í tíu ár er ótrúlegur, algjörlega ótrúlegur. Það sem ótrúlegast er að það var borgarstjórn Reykjavíkur sem gekkst fyrir því og samþykkti það.

Sundabrautin. Ég er sammála því að hún á að vera forgangsmál, en það er erfitt að fara í þá framkvæmd held ég nema við skipuleggjum líka bestu svæði höfuðborgarsvæðisins fyrir íbúabyggð. Þá er ég að tala um Geldinganes og síðan ættum við nú að taka fordómalausa umræðu um það hvort við ættum að nýta Viðey líka. En í það minnsta er Geldinganes algjörlega klárt fallegasta byggingarsvæðið í borginni og á höfuðborgarsvæðinu, ég fullyrði það.

Virðulegi forseti. Við verðum líka að vera meðvituð um að nú erum við að fá þennan gríðarlega fjölda ferðamanna til okkar, sem er frábært, og við verðum að huga að því. Það mun kalla á mikið af uppbyggingu vega og samgöngumannvirkja. Það er tvennt til ráða: Annaðhvort borgum við það með sköttum eða þeir borga sem njóta. Við eigum eins og aðrar þjóðir að líta til þess að það er eðlilegt og sjálfsagt að við sem keyrum á vegunum og nýtum vegina greiðum fyrir það sérstaklega. Það er ekkert sérstaklega sanngjarnt að þeir sem gera það ekki þurfi að greiða það í gegnum skattana sína.