149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

skipulögð glæpastarfsemi.

[09:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar. Það eru nýkomnar fréttir af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi sem er verulega alvarleg. Miðflokkurinn hefur ítrekað staðið fyrir sérstökum umræðum um málefni löggæslu í landinu, bæði lögreglu og tollgæslu, og talað fyrir daufum eyrum. Bent hefur verið á að það vanti 80 lögreglumenn á vaktir á höfuðborgarsvæðinu til þess m.a. að vinna greiningarvinnu, vinna að forvarnastarfi, vinna að frumkvæðismálum, en það hefur lítið gerst. Ég ætla ekki að vanþakka það sem hefur gerst varðandi kynferðisbrot og tölvuglæpi o.s.frv. en það er ekki sýnileg löggæsla. Það er ekki frumkvæðisvinna. Það eru ekki lögreglumenn á vakt. Það eru ekki hendur sem taka til þegar erfið útköll eru. Það eru ekki menn sem duga, það vantar sem sagt líka upp á þjálfun. Það vantar forvirkar rannsóknaraðferðir.

Það sem sá sem hér stendur vill fá að vita og spyr forsætisráðherra um er: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Það er alltaf erfiðara þegar menn þurfa að vinna til baka landsvæði eða vinna til baka eitthvað sem hefur á hallað. Nú er það því miður þannig að skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið um sig og það tekur töluvert á að snúa þeirri þróun við. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að sporna við þessari starfsemi, reyna að uppræta hana? Hvernig á að efla lögregluna, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu? Hvernig á að bæta tækjakost hennar? Hvernig á að bæta aðferðir hennar, forvirkar o.s.frv.? Svar óskast nú.