149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

dagskrártillaga.

[11:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Bara til að taka undir það sem fram hefur komið hjá ræðumönnum á undan þá snýst þetta einfaldlega um að svissa málum 15 og 16, sem sagt annars vegar málinu sem snýr að útfærslu á lausn til handa öryrkjum og hins vegar fjármálastefnunni. Það má ætla að þegar líður á daginn fari stjórnarliðar að berja á okkur stjórnarandstæðingum fyrir að halda þessari tímabæru réttarbót, úrlausn mála, frá öryrkjum. Ég vil flagga því strax að þeirri skömm verður skilað beint heim til stjórnarflokkanna. Þetta er algjörlega á ábyrgð þeirra. Auðvitað eigum við að klára þetta mál núna strax í byrjun. Það má leiða líkur að því að umræðan verði ekki mjög löng þótt hún verði auðvitað einhver um svona mikilvægt mál. En það er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna dragist þetta mál og verði jafnvel tekið af dagskrá ef allt fer á versta veg.