149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

dagskrártillaga.

[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér fannst mikilvægt að það kom skýrt fram í máli hans og allur þingheimur hlýddi á að sú tillaga sem liggur fyrir er á ábyrgð forseta. Þess vegna brýni ég þingmenn ríkisstjórnarinnar, ekki síst Framsóknar og Vinstri grænna, að fara með okkur í stjórnarandstöðunni sem erum á þessari tillögu með því að segja skýrt: Við ætlum að forgangsraða dagskránni. Þetta er lítil breyting en skiptir miklu máli fyrir stóran hóp fólks sem þarf á stuðningi okkar allra að halda úti í samfélaginu, að setja málefni öryrkja um krónu á móti krónu á undan. Það er mál sem mun ganga nokkuð snurðulaust í gegnum þingið. Það er ekki verið að tefja neitt, fjármálastefnan verður afgreidd, en við erum einfaldlega að segja skýrt: Við ætlum, af því að það er búið að bíða lengi eftir málinu, að forgangsraða í þágu aldraðra og öryrkja og setja málið framar á dagskrá. Þetta er ósköp einfalt og þess vegna hvet ég þingmenn ríkisstjórnarinnar, því að þetta er bara dagskrártillaga forseta, ekki ríkisstjórnarinnar, til að snúast á sveif með okkur öðrum í stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Ég hvet sérstaklega þingmenn Vinstri grænna og Framsóknar til að hlýða því.