149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

dagskrártillaga.

[11:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég aðhyllist það að tala skýrt í pontu um hvernig þingleikfimi getur stundum virkað á Alþingi. Mér finnst mikilvægt að borgarinn, áhorfandinn, hafi aðgang að þeirri umræðu. Ég fæ ekki betur séð, þó að ég sé opinn fyrir öðrum skoðunum í því efni, að það sem ég tel að hafi verið mistök hér áðan, að lengja þennan fund með þeim formerkjum sem virðulegur forseti setti við lengingu, muni skaða umræðuna um málið sem hér er lagt til að verði á undan sem og umræðu um fjármálastefnuna. Ástæðan er sú að núna eru komnir fram ákveðnir hagsmunir fyrir einn tiltekinn flokk að tefja þessar tvær umræður fram yfir miðnætti. Það tel ég mikil mistök. Ég tel að það muni skemma fyrir umræðunni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það mál sem hér er lagt til að verði sett á undan verði sett á undan til þess að öðrum þingmönnum minni hlutans verði ekki refsað fyrir málþófið sem hv. Miðflokkur hefur verið með um þriðja orkupakkanum og mun væntanlega halda áfram.