149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú þegar við göngum til atkvæða um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þakka ég hv. velferðarnefnd fyrir afar góða og ítarlega vinnu. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að vera framsögumaður málsins og halda utan um það í gegnum nefndarstarfið. Þetta eru mikilvæg þáttaskil. Þetta er fyrsta heilbrigðisstefnan sem er samþykkt á Alþingi og gildir til ársins 2030. Það er breiður stuðningur við málið og ég þakka það sérstaklega líka. Hér höfum við skýrari umgjörð um þjónustuna en áður hefur verið fyrir hendi sem ætti að stuðla að meira öryggi, betri þjónustu, bættri mönnun og ábyrgari ráðstöfun fjár í þessu mikilvæga máli.

Stefna heilbrigðisstofnananna í framhaldinu mun byggjast á þessari heilbrigðisstefnu og fundir verða haldnir úti um land um innleiðinguna. Enn og aftur vil ég þakka góða vinnu og öllum þeim sem hafa komið að þessu mikilvæga starfi, ekki síst umsagnaraðilum og þeim sem hafa tekið þátt í undirbúningi málsins á fundum og starfsfólki ráðuneytisins fyrir góða vinnu.