149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[12:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, með þeim sem hér töluðu á undan, að þetta er mikið happaskref, mikilvægt skref. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að hafa ýtt þessu máli áfram þó að ég hefði vissulega viljað sjá ríkisstjórnina sýna þar frumkvæði.

Hæstv. forsætisráðherra er í salnum og langar mig til að hvetja hana til að taka til skoðunar valkvæða viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk. Þingið samþykkti samróma á haustdögum 2016 að fullgilda ætti valkvæða samninginn við þennan mikilvæga samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í vetur, en hún var algjörlega á öndverðri skoðun og taldi ekki mikilvægt að fullgilda valkvæða viðaukann. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að taka það mál upp. Það skiptir líka máli fyrir réttindi fatlaðs fólks að þeirri réttarbót verði fylgt eftir. Þetta er mikill gleðidagur og ég hlakka til að geta greitt þessari mikilvægu tillögu atkvæði mitt hér á eftir.