149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:45]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og spurningarnar. Ég freistast til að svara spurningunni: Nei, af því að röð atburða samkvæmt reglunum sem eru settar og ber að fara eftir er auðvitað að grípa fyrst til tækra úrræða. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er býsna sérkennilegt að sjá ekkert um það fjallað í tillöguplagginu núna hvað hefði komið til greina að gera innan ramma tiltækra úrræða og af hverju þeim úrræðum er ekki beitt. Ég held að það hljóti að þurfa að vera undanfari þess að menn kjósi að fara hina leiðina, að endurskoða stefnuna með þeim hætti sem hér er lagt til af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórnar. Ég er sammála þingmanninum um að þetta horfir svona við mér eins og honum.