149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið og spurningarnar. Maður getur að sjálfsögðu velt fyrir sér hvort þarna sé ekki dæmi um atburði sem stjórnvöld, þá er ég að tala um þá sem stýra efnahagsmálum þjóðarinnar, hljóta að hafa augun á. Svarið er mjög einfalt, það hlýtur að vera: Já, menn verða að hafa augun á því vegna þess að nú stöndum við frammi fyrir endurskoðun á fjármálastefnu vegna þess að akkúrat umrætt fyrirtæki fór á höfuðið. Það er auðvitað synd að það skyldi gerast, en það gerðist.

Ég tek undir hugleiðingar hv. þingmanns um að það er í það minnsta verðugt athugunarefni hversu lengi þetta — ég ætla að segja dauðastríð, þó að það sé kannski óviðeigandi, gat staðið. Það er rétt að Isavia er fyrirtæki sem innheimtir gjöld og það sá í gegnum fingur sér við fyrirtækið og eftirlitsaðilarnir höfðu auga á því, en einhvern veginn virtist það ekki duga. Svörin sem hafa komið, og ég held að ég muni það rétt að hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst sérstakri ánægju sinni með þau, eru að það hafi verið viðskiptaleg og markaðsleg sjónarmið sem ráðið hafi för hjá Isavia um að grípa ekki til neinna aðgerða í ljósi ástandsins. (Forseti hringir.)

Maður hlýtur að spyrja sig, miðað við alla þá fjármuni sem í húfi voru, hvort það sé eiginlega ásættanleg skýring á málinu, að menn hafi bara verið að hugsa um markaðsleg sjónarmið.