149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það þarf svolítið til til að fjármálastefna ríkisstjórnar sé tekin upp eins og við erum að gera hér í dag. Með leyfi forseta:

„Þær aðstæður sem einkum réttlæta eða eftir atvikum krefjast endurskoðunar fjármálastefnu geta t.d. verið alvarleg skakkaföll í atvinnustarfsemi, ófyrirséður tekjusamdráttur í þjóðarbúinu, náttúruhamfarir eða þjóðarvá.“

Þetta er tekið upp úr greinargerð með þeirri endurskoðuðu fjármálastefnu sem við ræðum nú. Mér sýnist fljótt á litið, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á áðan, enginn þingmaður stjórnarflokkanna hafa komið í ræðu hingað til. Það er enginn þingmaður stjórnarflokkanna á mælendaskrá, mér sýnast vera tíu manns á mælendaskrá eins og þetta stendur núna, þannig að áhugaleysið er alveg með hreinum ólíkindum þegar horft er til þess að ekki nema tveir þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið í andsvör, hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson, en áhugaleysi annarra er alveg með ólíkindum.