149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir með fleiri hv. þingmönnum hér. Það hlýtur að vekja upp spurningu í ljósi þess að taka upp fjármálastefnu ríkisstjórnar. Slíkri gjörð eru settar verulega þröngar skorður í lögum um opinber fjármál. Það þarf einhvern meiri háttar atburð í íslensku efnahagslífi til að svo megi gera. Sú staða sem nú er uppi virðist hins vegar vera svo léttvæg í huga stjórnarmeirihlutans að ekki nennir nokkur þingmaður meiri hlutans að sitja undir umræðunni, hvað þá að taka þátt í henni. Maður spyr: Eru þá virkilega fyrir hendi þau skilyrði sem þurfa að vera til að taka upp fjármálastefnu fyrst stjórnarmeirihlutinn metur stöðuna ekki alvarlegri en svo að hann nennir ekki einu sinni að ræða hana? Það sætir nokkurri furðu og er raunar alveg með ólíkindum að t.d. enginn fulltrúi meiri hlutans í fjárlaganefnd sjái ástæðu til að sitja umræðuna (Forseti hringir.) eða taka þátt í henni.