149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá nálgun sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum Helga Hrafni Gunnarssyni og Halldóru Mogensen varðandi þessi vinnubrögð. Það er alveg rétt að við erum alltaf föst í sama farinu og eiginlega er þetta orðið verra en það hefur verið á þeim tíma sem ég hef setið á þingi, og ég þekki þó ýmislegt hér. Samt byrjaði þessi ríkisstjórn með lúðrablæstri um að bæta ætti þingstörfin. Það hefur ekki verið gert. Það er alveg ljóst að þessi fjármálastefna fer til nefndar. Það er enginn að reyna að drepa málum á dreif. Við viljum bara fá umræðu um mikilvægt mál. Þetta er í fyrsta sinn sem fjármálastefna er lögð fram og í fyrsta sinn sem henni er breytt, eftir 14 mánaða líftíma. Málið er stórt og alvarlegt.

Af því að ég vitnaði í þingmann stjórnarandstöðunnar og stjórnarliða núna vil ég fara í vopnabúr þáverandi (Forseti hringir.) stjórnarandstöðu, sem var kannski ekki alltaf til fyrirmyndar, en ég held að það sé alveg ljóst að við munum óska eftir því, og ég óska eftir því hér með, að forsætisráðherra sitji líka fundi það sem eftir lifir umræðunnar og taki þátt í henni fyrst stjórnarliðar gera það ekki. A.m.k. vil ég fá svör við því af hverju forsætisráðherra er ekki hér í salnum. Þetta er grundvallarplagg hjá ríkisstjórninni.