149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er gaman þegar fólk saknar manns. Yfirleitt hef ég verið nokkuð dugleg að tala úr þessum ræðustól og held að ég hafi tekið til máls undir öllum fjármálastefnum, fjármálaáætlunum og fjárlögum sem lögð hafa verið fram síðan ég tók sæti á þingi. Ég hef fylgst ágætlega með umræðunni í dag þó að ég hafi ekki haft tök á því að fara í andsvör enda, eins og fram hefur komið í umræðunni undir liðnum fundarstjórn forseta, hefur verið málefnaleg og góð umræða og yfirleitt tvö til fjögur andsvör við hverja ræðu þannig að umræðan hefur verið töluverð.

Ég verð þó að viðurkenna, forseti, að ég er enn að átta mig á því hvort stjórnarandstöðunni finnist þetta mjög léttvægt mál eða ekki, hvort það hafi verið alveg fyrirsjáanlegt að fyrirtæki færu á hausinn sem hefði mikil áhrif á ferðaþjónustuna og að það yrði loðnubrestur. Ef það var svo fyrirsjáanlegt, hefði þá verið skynsamlegt að gera ráð fyrir því í fjármálastefnunni? Ég er búin að hlusta á þessar ræður og hyggst hlusta á einhverjar ræður í viðbót til að ákveða hvort (Forseti hringir.) eða hvað það er raunverulega sem verið er að halda fram hérna í þessu máli. Hvað hefði verið skynsamlegra að gera? (Gripið fram í: Mér þykir áhugavert að heyra að þú…)