149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig rámar í það að Vinstri grænir hafi lagt á það sérstaka áherslu þegar stjórnarsáttmáli var gerður að leggja ætti sérstaka áherslu á þingið, virðingu þess og samstarf við þingið. Það fer nú frekar lítið fyrir því, fólk af þeim kynstofni hefur alls ekki sést í þingsalnum í nokkra klukkutíma.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur áhyggjur af því að við séum að verða uppiskroppa með rökin. Við erum búin að tala um þetta núna, eru það ekki að verða sex klukkutímar? Eitthvað hefur verið sagt þar en það hlýtur þá að leiða það mjög greinilega í ljós, ef maður gagnályktar frá því að við höfum þurft sex tíma til að tala um okkar rök, að rök stjórnarliða eru alls engin. Þeir þurfa ekki eina mínútu til að gera grein fyrir sínum rökum. Er það ekki fullkomið rökþrot, hæstv. fjármálaráðherra? [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.)