149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ekki rétt að stjórnarliðar hafi ekki tekið þátt í umræðunni. Málið er borið upp af fjármálaráðherra sem er hér staddur, flutti framsöguræðu sína og fór í andsvör við alla helstu talsmenn stjórnarandstöðunnar. Eftir það sakna menn þess kannski að fá ekki fleiri til að koma upp í andsvör við. En eiga menn einhvern skilyrtan rétt til þess að þeir sem eru mættir til að hlýða á fyrri umr., kynna sér þingskjalið og hlusta á umræðuna, blandi sér í hana? Ég held að það sé dálítið langt seilst að ætlast til þess að menn geri það. Er ekki bara málið það sem fyrirséð var, og ég vísa aftur til upphafs þessa þingfundar þar sem menn voru að vandræðast með það hvað fundur ætti að standa lengi og hvernig menn gætu haldið áfram að tefja þingstörfin eins og stjórnarandstaðan hefur gert undanfarnar vikur, að það er að renna upp fyrir mönnum að umræðan er að fara að klárast? Og er hún ekki bara orðin ágæt? Hún hefur orðið mun lengri en hún var síðast og við síðustu fjármálaáætlun sömuleiðis. (Forseti hringir.) Er það eitthvert sérstakt vandamál? Myndi fótboltalið sem fær að vera eitt á vellinum og skora mörk hinum megin allan leikinn mæta og kvarta undan því eða hafa menn kannski ekki skorað mörk í þessum leik? (LE: Þetta snýst ekki um að skora mörk.) (HKF: Er þetta leikur?)