149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég held að það sé óhætt að orða þetta þannig að a.m.k. horfði ríkisstjórnin fram hjá þeim aðvörunarorðum sem komu fram frá fleirum en einum aðila, mikilvægum aðilum í þeim efnum þegar stefnan var unnin. Það ríkti alveg óhemjumikil bjartsýni um að hér yrði áframhaldandi hagvöxtur út tímabilið sem ég held að allir hafi verið sammála um að væri fremur óraunhæft í ljósi sögunnar. Hér var búið að ríkja mjög langt hagvaxtarskeið og eins og við þekkjum taka þau öll enda.

Niðurskurður? Jú, það er rétt hjá hv. þingmanni að það má eiginlega lesa það á milli línanna en samt finnst mér einhvern veginn eins og ríkisstjórnin sé að reyna að forðast að segja eða láta í ljósi að það verði niðurskurður. Í því sambandi tel ég mikilvægt að skoða með hvaða hætti ríkissjóður getur komið inn í til að draga úr þessum neikvæðu áhrifum á efnahagsmálin. Þar hef ég t.d. talað fyrir því hvort það gæti verið að við ættum að falla frá áformum um þjóðarsjóð og nýta þá fjármuni sem ætlaðir eru í sjóðinn til að fara í innviðauppbyggingu, fjárfestingu hins opinbera o.s.frv. til að vinna á móti niðursveiflunni sem er að bresta á. Að sjálfsögðu á að leita allra leiða til að ekki komi til niðurskurðar, sérstaklega í velferðarmálunum, en sá grunur sækir að manni að það stefni í að það verði gert en verið sé að reyna að forðast að nefna það.