149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem verið er að gera hér. Verið er að endurskoða stefnu út frá forsendum til þess að geta varðveitt þann efnahagslega árangur sem þó hefur náðst og þann stöðugleika sem er og grunngildin sem við horfum til í 6. gr. og fjármálaráð mun væntanlega gefa okkur umsögn um.

Stóru tíðindin eru óvissusvigrúmið. Hv. þingmaður nefnir Seðlabankann og svartsýnni spá. Ef forsendur fara nú á verri veg með þessa endurskoðuðu stefnu er meira svigrúm en áður þannig að við erum að læra að vinna með lögin og bæta verklag. Það blasir alveg við. Það eru stóru tíðindin í þessu.

Síðan er það þannig að þrátt fyrir að aðhaldsstigið hafi verið með lítinn afgang grípur það þrjá fjórðu hluta af þessari snöggu niðursveiflu, þannig að, nei, það verður ekki gengið á velferðarkerfið eða þá sem veikast standa. Það eru u.þ.b. 10 milljarðar sem þurfa einhverjar hliðranir í fjárfestingar eða annað slíkt. Við í fjárlaganefnd höfum ekki fengið að sjá það endanlega en afgangurinn grípur þetta að þremur fjórðu og það er jafnvægi milli tekna og gjalda í þessari stefnu.

Þar er horft til sjálfbærni og stöðugleika þannig að það er vissulega verið að horfa til gildanna í endurskoðun á þessari stefnu, um sjálfbærni og um stöðugleika, og svo er auðvitað þetta af hverju við erum í færum til að gera þetta núna. Það er vegna þess að passað hefur verið upp á að greiða niður skuldir, minnka vaxtabyrði og horfa á sjálfbærni til lengri tíma. Það er það sem þarf að gera. Um leið og við mætum þessari snöggu niðursveiflu þurfum við að horfa á sjálfbærni til lengri tíma og þess vegna er verið að lenda þessu á núlli, í jafnvægi milli gjalda og tekna, (Forseti hringir.) og búa til óvissusvigrúm ef þetta fer á verri veg og án þess þá að ýkja niðursveifluna.