150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[14:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir að hafa lokið umfjöllun um þetta mikilvæga mál sem felur í sér mjög mikilvæg framfaraskref til að treysta varnir gegn hagsmunaárekstrum. Í tilefni af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál vil ég segja að aukið gagnsæi er langmikilvægasta eftirlitið með lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Frumvarpið felur svo sannarlega í sér aukið gagnsæi um hagsmunaskráningu stjórnmálamanna og æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Það mun fela í sér aukið eftirlit með störfum þeirra um leið og teknar eru upp nýjungar á borð við skráningu samskipta við hagsmunaverði, sömuleiðis til að tryggja þetta aukna gagnsæi sem skiptir svo miklu máli til að byggja upp traust. Þetta frumvarp, verði það að lögum, sem ég svo sannarlega vona, er mikið framfaraskref til að treysta og efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.