150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í frumvarpinu og meirihlutaáliti nefndarinnar að stjórninni sé gert að ræða við sérfræðinga og bera tillögur sínar undir sérfræðinga. (JÞÓ: Eftir því sem við á.)„Skylt“ stendur í meirihlutaálitinu. (JÞÓ: Við á.)Það er ráðherra sem tekur síðan lokaákvörðunina. Það kemur alveg skýrt fram í þeirri umgjörð sem hér er um að ræða.

Síðan vil ég segja að ég skoðaði aðeins hverjir hafa setið í Orkusjóði á undanförnum 20 árum. Ég get ekki séð betur en þetta hafi bara gengið mjög vel, hæft fólk og vel störfum sínum vaxið í málaflokknum, enda hefur sagan verið ótrúlega góð og öflug allan þennan tíma. (JÞÓ: Við erum að breyta því núna.)Við erum hér með hæfisreglur, við erum með stjórnsýslureglur sem vísað er til að gildi um þetta eins og annað, um hæfi og annað sem við kemur rekstri sjóðsins, sem við erum hér að setja ný lög um. Þannig að við teljum ekki þörf á því. Þetta hefur gengið vel og er mjög skýrt hvað verið er að leggja til, í hvað lög er vísað, þannig að við teljum að það sé mjög fullnægjandi hvernig staðið er að málum.