150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Hér er verið að útvíkka eignarréttinn þegar kemur að hugverkaréttindum. Þetta er það sem margir, sem eru hrifnir af Evrópusambandinu, segja samt sem áður að sé einn af göllunum við það, þ.e. hugverkalobbíistarnir sem eru mjög sterkir þar. Samkvæmt þessu frumvarpi á núna að víkka hugverkaréttinn, að vörumerkjaréttur nái líka yfir félagamerki og yfir lykt og bragð. Bara svo við áttum okkur á fáránleika málsins eða hvert hægt er að fara með það og í hvaða átt menn eru hægt og rólega að stíga, þó að kannski verði ekki mikið um það í upphafi, þá vitum við að þegar svona réttindi eru komin inn eiga þau það til að vinda upp á sig og verða stærri og stærri. Einu sinni höfðu menn t.d. einkarétt á lyfjum, þ.e. lyfinu sjálfu, mólikúlinu. Svo fór að bætast við að menn hefðu einkarétt á ferlinu við að búa til lyfið og alltaf bætist við. Það getur verið hættulegt. Þetta er nauðsynlegt að mörgu leyti, en við viljum ekki ganga of langt því að þetta getur takmarkað eðlilega framþróun samfélagsins, t.d. að menn hafi einkarétt á geni sem veldur brjóstakrabbameini og geti rukkað fyrir ef á rannsaka það. Að sjálfsögðu er það slæmt.

Þegar við tökum svona ákvarðanir verðum við að passa okkur á að stíga ekki skref í þá átt, opna ekki hurðina upp á gátt fyrir því að setja fyrirbæri eins og lykt og bragð undir vörumerki.

Prófum þetta. Hér er framsögumaður málsins, Halla Signý Kristjánsdóttir. Byrjum á Framsóknarflokknum. Hvernig myndi lykt og bragð Framsóknarflokksins vera ef Framsóknarflokkurinn myndi setja það inn í félagamerki sitt? Við vitum hver litur hans er og það er mynd af kornaxi í merkinu, en hvað með lykt og bragð? Lyktina er kannski auðveldara að ímynda sér, hvernig ætli hún sé? (Gripið fram í.) Fjósið, segir hv. þingmaður. Þarna er hann búinn að gera tilkall til þess, þannig að þegar þetta frumvarp verður samþykkt legg ég til að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir drífi sig niður á vörumerkjaskrifstofuna og skrái fjósið, áður en Miðflokkurinn nær fjósalyktinni. [Hlátur í þingsal.] Ég get róað hv. þingmann með því að þegar ég spurði hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson út í það hvort hann ætlaði að taka fjósalyktina, þá sagði hann: Nei, við tökum hestalyktina, að sjálfsögðu, með hestinn í merkinu sínu. Hv. þingmaður þarf því ekkert endilega að hlaupa, getur farið rólega af stað.

Prófum Sjálfstæðisflokkinn. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson er í salnum. Hvernig myndi lykt eða bragð af Sjálfstæðisflokknum vera? Það er erfitt, svolítið breiður flokkur og þar eru margir innan borðs. Það er ekki hægt að segja „Old Spice“, hann er ekki lengur með þá lykt, það er orðinn miklu meiri fjölbreytileiki í flokknum, en þingmaður ætti kannski að hugsa um þetta ef hann ætlar að ná réttu lyktinni í merki flokksins.

Prófum Vinstri græna. Ég held að fyrir síðustu kosningar hafi bragðið af Vinstri grænum verið ansi sætt, bragð breytinga og að gera betur. Hvernig er bragðið af því að gera betur? Mjög sætt. Mig grunar að samt sem áður að það sé orðið beiskt í dag. Við sjáum það náttúrlega af fylgistölunum að bragðið af Vinstri grænum í dag, ef þeir hefðu bragð og myndu skrá það, væri beiskja, beiskja kæmi mjög sterkt inn þar.

En ég undanskil ekki Pírata. Hvernig myndi lyktin eða bragðið af Pírötum vera? Það er spurning. Væri það romm? Kannski, því hefur oft verið fleygt í okkur Pírata. Bjórlykt? Píratar eru mjög hrifnir af bjór. Það er alla vega ekki skötulykt, við borðum ekki skötu eða annan þjóðlegan mat, þannig að kannski er það bjórinn.

En að öllu gríni slepptu er þetta ákveðin hætta. Það segir ekki í 3. gr. frumvarpsins að lykt og bragð falli undir þetta en það segir svo í greinargerðinni og dómur hefur fallið í Evrópudómstólnum þess efnis að lykt og bragð heyri þarna undir. Verið er að opna dyrnar fyrir slíku. Það sem ég vildi vita í nefndinni var hvort við gætum verið undanskilin þessu. Menn í nefndinni sögðu að við værum það ekki. Ég er ekki enn þá alveg viss um það, maður fær ekki alltaf réttar upplýsingar í nefndinni.

En þetta er staðan. Það á greinilega að samþykkja þetta. Kannski veit hv. þm. Smári McCarthy, sem kemur hér í ræðu á eftir mér, svarið við því hvort þetta sé eitthvað sem við gætum verið undanþegin, að við séum ekki að setja í lög á Íslandi um að félagamerki, vörumerki, geti innihaldið lykt og bragð. Það er eiginlega svolítið óbragð af því.