150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið er á yður gamanið, sagði konan, og ég segi það líka. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur farið nokkuð frjálslega yfir málið en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Við erum að innleiða tilskipun sem auðveldar íslenskum fyrirtækjum að fara á markað erlendis, í Evrópu með vöru sína, líkt og bragð eða lykt. Hv. þingmaður spurði hvaða lykt ætti við hvern flokk og ég kallaði fram í að það væri fjósalyktin hjá Framsókn. Hún er dæmi um mjög sterka og áberandi lykt og maður býr hana ekki til mjög einfaldlega, hún er til staðar. Það eru kannski ekki margir sem vilja bera hana en hún er náttúruleg, lífræn og góð. En svo er með alla lykt og allt bragð að það er svo huglægt mat hvað er gott og hvað ekki. Fjósalykt vekur sumum viðbjóð og öðrum finnst þeir komnir heim ef þeir finna hana.

En þá vil ég spyrja: Finnst hv. þingmanni það ekki vera til bóta að við séum að taka upp þessa tilskipun til að liðka fyrir íslenskum fyrirtækjum, að festa hana í sessi? Bragð og lykt kemur kannski síðar, við erum þegar farin að selja t.d. fjallaloft. Það er kannski ekki bragð eða lykt af því. En telur hv. þingmaður ekki til bóta að við séum að innleiða þessa tilskipun til að liðka fyrir íslenskum fyrirtækjum?